Pallurinn var smíðaður í Póllandi og fluttur til landsins, þar sem hann var boraður inn í fjallið. Nú hefur útsýnisglerið verið sett á fremsta punkt pallsins, en þar munu þeir allra hugrökkustu njóta stórfenglegs útsýnis yfir Ísafjarðardjúpið.



Iðnaðarmenn hafa undið hörðum höndum að verkefninu í yfir sex hundruð metra hæð. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum eru þetta einstaklega krefjandi og hættulegar aðstæður. Hafþór Gunnarsson hefur myndað verkefnið frá upphafi og þannig skrásett þessa einstöku framkvæmd.


Eins og komið hefur fram í umfjöllun okkar um verkefnið veitti Framkvæmdasjóður ferðamannastaða 160 milljónum króna til byggingar pallsins. Búast má við því að pallurinn verði einn vinsælasti ferðamannastaður Vestfjarða.

Fleiri myndir frá Hafþóri má sjá í myndaalbúminu hér fyrir neðan.