Setningarathöfn leikanna hófst nú klukkan 11 og fánaberar Íslands eru frjálsíþróttamaðurinn Patrekur Andrés Axelsson og sundkonan Thelma Björg Björnsdóttir.
Róbert Ísak Jónsson keppir svo fyrstur Íslendinga á mótinu, í 100 metra flugsundi í flokki S14, rétt eftir miðnætti í nótt.
Már stingur sér svo til sunds aðfaranótt föstudags. Þangað til drepur hann tímann að miklu leyti í ólympíuþorpinu, líkt og annað fremsta íþróttafólk heims úr röðum fatlaðra. Þar drýpur gull af hverju strái að sögn Más:
„Það má segja að ólympíuþorpið sé ímynd ákveðins himnaríkis, þar sem þú getur fengið þér hvað sem þú vilt á hvaða tíma sem þú vilt, og allt frítt,“ segir Már í myndbandi á Instagram, og sýnir svo hvernig hann getur fengið sér ískaldan drykk með því að nota sérstakt kort sem hver keppandi fær.
„Ég vil yfirfæra þetta á Reykjanesbæ,“ segir Már léttur en hann keppir fyrir Íþróttabandalag Reykjanesbæjar og hefur til að mynda verið kjörinn íþróttamaður sveitarfélagsins, árið 2019.