Hinn 37 ára gamli Fotios Lampropoulos ku hafa samið við félagið nýverið samkvæmt heimildum Karfan.is.
Grikkinn leikur í stöðu miðherja og er litlir 2.06 metrar á hæð. Hann lék síðast með Al Sadd í Katar en hefur leikið í mörgum af sterkari deildum Evrópu. Til að mynda lék hann með Estudientes í ACB-deildinni á Spáni árið 2019.
Þá lék Fotios með Nicholas Richotti hjá Tenerife á Spáni á sínum tíma en sá síðarnefndi samdi við Njarðvík á dögunum. Ásamt því að sækja þá tvo hefur Haukur Helgi Pálsson samið við Njarðvíkinga sem og Dedrick Basile.
Benedikt Guðmundsson, nýráðinn þjálfari liðsins, mun því mæta með töluvert breytt lið til leiks þegar körfuboltinn fer að rúlla hér heima á nýjan leik í október.