Sigga Dögg og Ahd Tamimi töluðu við nokkra viðmælendur og voru svörin jafn misjöfn og þau voru mörg. Í brotinu hér fyrir neðan ræða þau við Valdimar Örn Flygering leikara.
„Hún var ótrúlega léleg, þetta var ótrúlega lítið,“ segir leikarinn Valdimar Örn Flygering um kynfræðsluna þegar hann var í skóla þegar hann var yngri.
„Þetta var mikið tabú. Ég er í skóla tólf ára í kringum 1970, þá var þetta bara ein blaðsíða í einhverri heilsufræðibók. Við biðum spennt allan veturinn bekkurinn. Svo kemur blaðsíða 82, mig minnir að Jónína Þorgrímsdóttir hafi sagt:
„Já ég held að við þurfum ekkert að ræða þetta, þið vitið þetta.“
Svo var haldið áfram á næstu blaðsíðu. Þetta var kynfræðslan sem við fengum. Þetta var náttúrulega bara tabú.“
Þreifað í myrkrinu
Í þættinum rifjaði Valdimar Örn upp þegar hann sá klám í fyrsta skipti, eitthvað sem á þessum tíma var ekki rætt um. Hann sá stráka fletta klámblaði úti í garði.
„Ég vissi ekki einu sinni hvað þetta var, ég áttaði mig ekki á því.“
Valdimar segir að vegna skorts á kynfræðslu í skóla hafi hanns kennsla í raun verið að þreifa sig áfram í myrkrinu.
„Það var ekkert efni sem maður gat farið í. Það kom ekki fyrr en löngu seinna.“
Þættirnir Allskonar kynlíf eru á dagskrá Stöðvar tvö alla miðvikudaga.