Innlent

Kanna hvernig taka megi á móti afgönsku flóttafólki

Árni Sæberg skrifar
Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra undirbýr komu afganskara flóttamanna.
Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra undirbýr komu afganskara flóttamanna. Vísir/Vilhelm

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra segist bíða eftir tillögum flóttamannanefndar um hvernig megi taka við afgönsku flóttafólki.

„Við viljum að Ísland sýni ábyrgð gagnvart afgönsku þjóðinni, nú þegar flóttamannastraumurinn frá Kabúl er brostinn á,“ segir Ámundur Einar í Fréttablaðinu í dag.

Félagsmálaráðherra boðaði flóttamannanefnd á fund í gær og fól henni að gera tillögur til stjórnvalda um hvernig megi taka á móti flóttamönnum frá Afganistan. Hann segist ekki myndi biðja um tillögur nefndarinnar nema stjórnvöld ætluðu sér að taka á móti flóttamönnum.

Stefán Vagn Stefánsson, formaður flóttamannanefndar, segir mikilvægt að meta stöðuna vel áður en tillög er skilað til stjórnvalda. „Þetta er að gerast mjög hratt og mikið af upplýsingum eru að koma inn á hverjum degi. Við erum líka að sjá hvernig aðrar þjóðir og önnur ríki eru að taka á þessu“ segir hann.

Fjöldi flóttamanna muni aukast

Mikil ringulreið hefur ríkt í Afganistan undanfarna daga eftir að hersveitir Talibana náðu yfirráðum á höfuðborginni Kabúl og í raun landinu öllu.

Búist er við miklum fólksflutningum frá landinu á næstu misserum vegna uppgangs Talibana. Bretland tilkynnti í gær að tekið yrði við tuttugu þúsund afgönskum flóttamönnum og Kanada gerði slíkt hið sama á dögunum. Þá tóku Ástralir við 26 flóttamönnum í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×