Samkvæmt niðurstöðum alþjóðlegrar rannsóknar Deloitte segjast um 77% starfsfólks hafa upplifað tilfinningu um kulnun. Þetta eru sláandi tölur en geta líka virkað sem hvetjandi á fólk að þora að ræða um sína líðan.
Því ef þú telur þig bera einkenni kulnunar, er mikilvægt að þú segir frá þeirri líðan þinni eins fljótt og auðið er.
Í raun strax.
Mörgum reynist þetta þó erfitt skref. Fyrir vikið eykst orkuleysi, streita og vanlíðan. Að gera ekkert getur þó haft alvarlegar afleiðingar og gert okkur óvinnufær um tíma.
Hér eru því góð ráð sem geta nýst fólki til að ræða um kulnunareinkennin sín í vinnunni.
1. Stjórnandinn þinn er manneskja eins og þú
Okkur líður stundum eins og við séum ekki nógu góðir starfsmenn ef við látum í það skína að okkur líði ekki vel í vinnunni eða eigum erfitt.
Þetta er fyrsta viðhorfsbreytingin sem við þurfum að takast á við þegar að við opnum á umræðuna um okkar eigin kulnunareinkenni.
Enda er yfirmaðurinn okkar bara manneskja eins og við: Með alls kyns tilfinningar og líðan að glíma við. Því enginn er undanskilinn því að vera að glíma við eitthvað.
Gott er að bóka fund með yfirmanninum þínum og óska eftir samtali. Markmið fundarins er að ræða hvernig þér líður, láta vita að þú viljir sporna við frekari kulnun og að óska eftir stuðningi til þess.
Og vittu til: Eflaust þekkir yfirmaðurinn mun betur þau einkenni sem þú vilt ræða um, enda kulnun ekki óalgeng líðan hjá stjórnendum.
2. Einlægni og hreinskilni
Lykilatriði í að sporna við kulnun og hljóta þann stuðning sem til þess þarf í vinnunni, er að vera algjörlega hreinskilinn um það hvernig þér líður, hvaða áhyggjur þú hefur eða væntingar.
Yfirmaðurinn þinn mun örugglega upplifa það sem gott skref og hugrakkt að þú segir frá af einlægni.
Reyndu í samtalinu að vera eins nákvæm/ur og þú getur í lýsingum á því hvernig þú ert að upplifa glímuna við kulnunareinkennin dag frá degi í vinnunni. Því oft geta hugmyndir um umbætur fæðst strax við þessa frásögn. Að minnsta kosti hugmyndir um hvernig vinnan getur stutt þig og tekið fyrstu skrefin með þér.
Það er hins vegar munur á því að lýsa kulnunareinkennum og kvarta undan álagi. Mundu því að þetta er samtal um heilsu þína og líðan en ekki fundur þar sem ætlunin er að láta yfirmanninn vita að álagið er almennt of mikið eða aðbúnaður ekki nægilega góður.
Með því að halda fókusnum á því að ræða aðeins um kulnunareinkennin þín, eru meiri líkur á að þér og yfirmanninum takist að taka ákvarðanir sem munu hjálpa þér að sporna við þeim vítahring sem kulnun er.
3. Þín hlustun skiptir líka máli
Oft er talað um mikilvægi þess að stjórnendur kunni að hlusta vel á starfsfólkið sitt. Þá hefur það sýnt sig í rannsóknum að fólk er almennt ánægðari og líður betur ef það upplifir sig í umhverfi sem hlustar á það sem það segir. Því ef á okkur er hlustað finnum við betur að við skiptum máli.
Virk hlustun er hins vegar atriði sem allir þurfa að temja sér og þegar að við viljum sjálf ná árangri eða líða betur, skiptir mjög miklu máli að við vöndum okkur við alla hlustun.
Því með virkri hlustun erum við líklegri til að sjá og grípa lausnir og nýjar hugmyndir sem geta orðið okkur til góða.
Með góðri hlustun erum við móttækilegri fyrir góðum ráðum, stuðningi og leiðbeiningum um hvernig við getum spornað við kulnun og farið að líða betur.