Barkley er 24 ára gamall og kom sem stormsveipur inn í deildina árið 2018. Hann hljóp yfir 1300 stikur (e. yards) með boltann þá leiktíð, tók 91 sinni á móti boltanum fyrir 721 stikur til viðbótar, en 91 grip hans er met fyrir nýliða í deildinni. Þá skoraði hann 15 snertimörk og var valinn nýliði ársins það ár.
Barkley hljóp aftur yfir 1000 stikur á öðru tímabili sínu árið 2019, þrátt fyrir að spila aðeins 13 leiki, og varð þar með sá fyrsti í sögu risanna frá New York til að afreka það á sínum fyrstu tveimur leiktíðum með félaginu.
Leiktíðin í fyrra var hins vegar skammvinn hjá Barkley þar sem hann var borinn meiddur af velli í öðrum leik tímabilsins gegn Chicago Bears í lok september á síðasta ári. Í ljós kom að hann hefði slitið krossband. Barkley hefur ekki æft með liði sínu síðan en í dag var greint frá því að hann væri að snúa aftur á völlinn.
Ólíklegt þykir að hann nái upphafi komandi tímabils en ætti að vera klár þegar dregur á haustið.
Giants taka tíðindunum eflaust fagnandi eftir stormasamt undirbúningstímabil þar sem fregnir af slagsmálum á æfingum og af leikmönnum að leggjast í helgan stein hafa borið hvað hæst síðustu daga.
Þrír leikmenn liðsins, þeir Zach Fulton, Todd Davis og Joe Looney, hafa allir lagt skó sína á hilluna á innan við viku. Looney hafði samið við risanna aðeins nokkrum dögum áður en hann sagði ferli sínum lokið.

NFL er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NFL er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði. Beinar útsendingar frá öllum leikjum eru á NFL Game Pass sem hægt er að kaupa sem viðbót við Sportpakkann á 2.000 krónur á mánuði.