Ögmundur hefur verið utan hóps hjá Olympiakos í öllum Meistaradeildarleikjum liðsins frá komu tékkneska landsliðsmarkvarðarins Tomasar Vaclik frá Sevilla í sumar. Vaclik hefur þó ekki verið milli stanganna hjá liðinu heldur Grikkinn ungi Konstantinos Tzolakis.
Tzolakis þurfti að sækja boltann einu sinni í netið er Olympiakos mætti Ludogorets frá Búlgaríu í fyrri leik liðanna í 3. umferð í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Það var eftir mark Kirils Despodov sem skoraði fyrra mark leiksins fyrir Ludogorets. Allt virtist stefna í sigur þeirra búlgörsku en Aguibou Camara jafnaði fyrir þá grísku undir lok leiks. Liðin skildu því jöfn, 1-1.
Sverrir Ingi, sem sömuleiðis leikur á Grikklandi, var ekki í leikmannahópi PAOK sem tapaði óvænt 2-1 fyrir írska liðinu Bohemians á útivelli í fyrri leik liðanna í 3. umferð í forkeppni Sambandsdeildar Evrópu. Bohemians sló Stjörnuna úr keppni fyrr í sumar og er í fínni stöðu fyrir síðari leik liðanna í Grikklandi eftir viku.