„Rakningin okkar er enn þá í fullum gangi en það sjá það náttúrulega allir að þegar við erum með svona ástand eins og í dag að þá er rakningin ekki að ná að gefa jafn frábæra þjónustu eins og hefur verið,“ sagði Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna, í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag.
„Þessi þjónusta, þegar hefur verið náð að hringja í alla og segja þú ert að fara í sóttkví og útskýrt hvernig sóttkví virkar, þessu náum við ekki í dag,“ heldur hún áfram.
„Við náum að benda fólki á að það eigi að vera í sóttkví og að það geti lesið sér til um hvað það þýðir. Þetta er okkar nýi veruleiki akkúrat í dag. Við þurfum svolítið að passa upp á okkur sjálf og bera ábyrgð.“
Fólk með einkenni tregt til að fara í sýnatöku
Hún telur að fólk sé orðið hálfkærulaust þegar það finni fyrir einkennum:
„Margir eru með einkenni en hugsa: Ég er bólusettur eða bólusett og þetta er bara eitthvað kvef,“ segir hún og telur þetta eina skýringu þess að svo margir greinist áfram utan sóttkvíar.
Aldrei hafa fleiri greinst með virkt smit á einum degi og í gær, þegar 145 greindust hér innanlands. Af þeim voru 98 utan sóttkvíar við greiningu.
Ekki eru nema örfáir dagar síðan fyrra met var slegið og má búast við að smittölur næstu daga verði svipaðar og tölur gærdagsins ef ekki hærri, að sögn Hjördísar.
„Talan er há og þetta er eiginlega orðið þannig að okkur finnst hundrað orðið eitthvað venjulegt, en auðvitað er það ekki venjulegt og það er ástæða fyrir því að við erum að tala um það sem við þurfum að vera að gera öll saman,“ segir Hjördís.
„Ég held við þurfum bara enn og aftur að hvetja fólk, sem er með einkenni til að fara í sýnatöku. Það er bara það sem skiptir okkur öllu máli, fyrir allt samfélagið.“