Saka, Marcus Rashford og Jadon Sancho voru beittir kynþáttaníði eftir að hafa mistekist að skora úr vítaspyrnum sínum í úrslitaleiknum gegn Ítalíu á EM. Saka tók síðustu spyrnu Englands og hefur Gareth Southgate landsliðsþjálfari Englands verið gagnrýndur fyrir að velja hinn 19 ára gamla Saka til að taka spyrnu undir svo mikilli pressu.
Saka hefur nú í fyrsta sinn tjáð sig eftir tapið og þakkar í yfirlýsingu fyrir fjölmörg hjartnæm skilaboð sem honum hafa borist. Það hafi verið heiður að tilheyra enska landsliðinu og komast með fóstbræðrum sínum í fyrsta úrslitaleik Englands í 55 ár.
— Bukayo Saka (@BukayoSaka87) July 15, 2021
„Það eru engin orð til að lýsa því hve vonsvikinn ég er með niðurstöðuna og vítið mitt. Ég var viss um að við myndum vinna fyrir ykkur. Mér þykir fyrir því að við skyldum ekki landa þessu heim en ég lofa því að við gerum allt sem að við getum til að þessi kynslóð viti hvernig það er að vinna,“ segir Saka í yfirlýsingunni.
„Viðbrögð mín í leikslok segja alla söguna. Ég var svo sár og svekktur og fannst ég hafa brugðist ykkur öllum og ensku landsliðsfjölskyldunni minni en ég get lofað ykkur einu. Ég mun ekki láta þessa stund eða neikvæðnina sem ég hef mætt síðustu daga brjóta mig niður,“ segir Saka og skýtur á samfélagsmiðlarisana:
„Við samfélagsmiðlana Instagram, Twitter og Facebook vil ég segja að ég vil ekki að nokkurt barn eða fullorðin manneskja þurfi að þola þau hatursfullu og særandi skilaboð sem ég, Marcus og Jadon höfum fengið síðustu daga. Ég vissi um leið hvers lags hatri ég myndi mæta og það er dapurlegur raunveruleiki að ykkar öflugu miðlar geri ekki nóg til að stöðva þessi skilaboð,“ segir Saka, og bætir við að ekkert pláss sé fyrir rasisma í fótbolta eða nokkurs staðar í samfélaginu.