Sport

Elsa setti þrjú heimsmet eftir að hafa æft aðeins í tvö ár

Valur Páll Eiríksson skrifar
Elsa Pálsdóttir
Czech Powerlifting

Elsa Pálsdóttir þríbætti í dag heimsmet í hnébeygju, réttstöðulyftu og samanlögðum árangri í sínum aldurs- og þyngdarflokki á Evrópumóti öldunga í kraftlyftingum í Plzen í Tékklandi.

Elsa er 61 árs gömul og keppti í -76 kg flokki í aldurshópi 60 til 69 ára. Í sinni fyrstu hnébeygju í dag bætti hún heimsmet í greininni með því að lyfta 117,5 kílógrömmum, einu og hálfu kílói meira en fyrra met upp á 116 kg.

Í næstu lyftu bætti hún það enn frekar með því að lyfta 125 kg og þriðja lyftan var 130 kg. Hún bætti heimsmetið því í þrígang í þremur lyftum.

Hún bætti sömuleiðis heimsmet í réttstöðulyftu þar sem hún lyfti 157,5 kg, en hennar besti árangur fyrir það var upp á 140 kg.

Þá lyfti Elsa 52,5 kg og 60 kg í bekkpressu sem var þess valdandi að hún bætti heimsmetið í samanlögðum árangri. Samanlagt lyfti hún 347,5 kg í flokkunum þremur, 12,5 kg meira en fyrra met.

RÚV greinir frá því að Elsa hafi aðeins æft kraftlyftingar í tvö ár, sem gerir árangur hennar ekki minna merkilegan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×