Slysið varð um klukkan 10:45 að staðartíma og voru viðbragðsaðilar kallaðir út stuttu síðar. Viðbragð á vettvangi hefur verið mikið í allan dag, þar sem björgunarsveitarfólk, lögreglufólk og sjúkraflutningafólk hefur streymt að. Enn er ekki víst hvort fleiri hafi slasast í slysinu.
Allar lestarsamgöngur frá Hässleholm voru stöðvaðar eftir slysið og var farþegum lestarinnar gert að bíða í henni þar til um klukkan eitt í dag áður en rýming hófst. Vettvangi var lokað fyrir umferð um leið og lögreglu bar að garði og hefur lögregla staðið í ströngu við að taka skýrslur af vitnum að slysinu í dag.
Tæknilið lögreglu er enn á staðnum til að safna sönnunargögnum um það hvað nákvæmlega hafi átt sér stað. Robert Loeffel, talsmaður lögreglu, segir í samtali við sænska ríkisútvarpið að það muni taka nokkurn tíma.