Arnór Ingvi byrjaði á varamannabekk New England í kvöld og félagar hans byrjuðu vel án hans. Tajon Buchanan kom liðinu í 1-0 forystu á 13. mínútu leiks og þá tvöfaldaði Gustavo Bou þá forystu eftir hálftímaleik. Gyasi Zardes minnkaði aftur á móti muninn níu mínútum síðar og 2-1 stóð í hléi.
Andrew Farrell, miðvörður New England, skoraði þá sjálfsmark á 69. mínútu sem þýddi að staðan var orðin jöfn, 2-2. New England freistaði þess að komast yfir á ný og gerði Bruce Arena, þjálfari liðsins, þrefalda skiptingu tólf mínútum fyrir leikslok þar sem Arnór var á meðal þeirra sem kom inn á.
Það gekk þó ekki, mörkin urðu ekki fleiri og 2-2 jafntefli niðurstaðan.
New England er sem fyrr á toppi Austurdeildarinnar með 24 stig eftir tólf leiki en Orlando City er með 21 stig í öðru sætinu og á tvo leiki inni á strákana frá Boston.