Fleiri líkamsleifar fundust þegar björgunarliði tókst að komast efst í rústir byggingarinnar en kennsl hafa ekki verið borin á þær ennþá. Nærri því 150 manns er saknað í rústunum.
Yfirvöld á Flórída hafa nú óskað eftir aðstoð alríkisstjórnarinnar við að leita í brakinu. Óttast er að óveður sem er spáð á næstu dögum geti sett strik í reikninginn fyrir björgunar- og leitarlið.
Ríkissaksóknari í Miami-Dade-sýslu hefur boðað rannsókn á hvernig það kom til að álma Champlain-blokkarinnar í bænum Surfside nærri Miami hrundi í síðustu viku. Ekki liggur fyrir hvort að ákærur gætu verið gefnar út, að sögn Washington Post.
Enn liggur ekki fyrir hvað olli því að byggingin hrundi. Forseti húsfélagsins er sagður hafa sent íbúum bréf um versnandi ástand hennar í apríl. Skemmdir sem hafi orðið á því árið 2018 hafi versnað til muna og ástandið ætti eftir að verða enn verra yrði ekki gripið til framkvæmda.
Þá hefur verið vitnað í skýrslu verkfræðinga um stórar sprungur í bílakjallara byggingarinnar þar sem hvatt var til þess að ráðist yrði strax í viðgerðir.