Körfubolti

NBA dagsins: Aðeins einn afrekað það sama og George þegar hann gaf Clippers líflínu

Sindri Sverrisson skrifar
Paul George átti draumaleik þegar mest lá við í nótt en þarf að eiga fleiri frábæra leiki til að LA Clippers komist í úrslitin.
Paul George átti draumaleik þegar mest lá við í nótt en þarf að eiga fleiri frábæra leiki til að LA Clippers komist í úrslitin. AP/Matt York

Það veltur að miklu leyti á Paul George hvort að LA Clippers kemst í úrslit NBA-deildarinnar í körfubolta. Hann stóð undir væntingum í nótt þegar Clippers unnu Phoenix Suns 116-102.

Úrslitaeinvígi vesturdeildarinnar er því ekki lokið en Phoenix er 3-2 yfir fyrir sjötta leikinn sem fram fer í Los Angeles annað kvöld. Svipmyndir og helstu tilþrif úr leiknum í nótt má sjá í NBA dagsins hér að neðan.

Klippa: NBA dagsins 29. júní

Kawhi Leonard hefur misst af öllu einvíginu til þessa, og sjö leikjum í röð í úrslitakeppninni, eftir að hann meiddist í leik gegn Utah Jazz. Óvissa ríkir um meiðsli hans en Clippers hafa ekki útilokað að Leonard taki þátt í leiknum á morgun.

Án Leonards þurfa Clippers enn frekar en ella að treysta á Paul George sem skoraði 41 stig í nótt, þar af tuttugu í þriðja leikhluta. Það sem meira er þá hitti hann úr 15 af 20 skotum sínum úr opnum leik. Hann tók auk þess 13 fráköst og gaf sex stoðsendingar.

Það hefur aðeins einu sinni áður gerst að leikmaður skori 40 stig, með 75% nýtingu, taki 10 fráköst og gefi fimm stoðsendingar í leik í úrslitakeppni. Það afrekaði New York Knicks goðsögnin Patrick Ewing.

George hefur skorað að minnsta kosti 20 stig í öllum 18 leikjum Clippers í úrslitakeppninni til þessa og þannig komist í hóp með Michael Jordan, Kevin Durant og Kobe Bryant.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×