Piteå, lið Hlínar Eiríksdóttur, tapaði 3-0 á heimavelli fyrir Hammarby. Liðið er í 10. sæti deildarinnar með sjö stig, líkt og Djurgården og Eskiltuna, aðeins fjórum stigum frá botnliði Växjö. Hlín Eiríksdóttir var ekki í leikmannahópi Piteå vegna meiðsla.
Hammarby er með 15 stig eftir sigurinn í 3. sæti.
Diljá Ýr Zomers spilaði síðasta hálftímann í liði Häcken sem gjörsigraði AIK 10-0 á sama tíma. Diljá komst á blað þar sem hún skoraði tíunda markið stundarfjórðungi fyrir leikslok, um tíu mínútum eftir að hafa komið inn á.
Hallbera Gísladóttir spilaði allan leikinn í vörn AIK. Häcken er eftir sigurinn með 20 stig í öðru sæti, tveimur stigum á eftir toppliði Rosengård sem á leik inni. AIK er í áttunda sæti með níu stig.
Klukkan 15:00 hófst leikur Örebro við Íslendingalið Kristianstad. En hann er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3.

Sænska úrvalsdeildin er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Sænski boltinn er hluti af Stöð 2 Sport Erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.