Körfubolti

Stórkostleg frammistaða hjá Durant í nótt í lykilleik í einvíginu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Durant  var alveg sjóðandi heitur í sigri Brooklyn Nets í nótt. Hann setti á svið eina bestu frammistöðuna í sögu úrslitakeppni NBA.
Kevin Durant  var alveg sjóðandi heitur í sigri Brooklyn Nets í nótt. Hann setti á svið eina bestu frammistöðuna í sögu úrslitakeppni NBA. AP/Kathy Willens

Kevin Durant bauð upp á eina besti frammistöðuna í sögu úrslitakeppni NBA deildarinnar í körfubolta í nótt þegar Brooklyn Nets komst í 3-2 á móti Milwaukee Bucks.

Durant var með 49 stig, 17 fráköst og 10 stoðsendingar í 114-108 sigri Brooklyn Nets á Milwaukee Bucks í fimmta leik liðanna.

„Söguleg, söguleg frammistaða,“ sagði Steve Nash, þjálfari Brooklyn Nets, eftir leikinn.

James Harden kom aftur til baka úr meiðslum og spilaði 46 mínútur en Brooklyn liðið var án Kyrie Irving sem meiddist á ökkla í síðasta leik. Harden var með 5 stig, 8 stoðsendingar og 6 fráköst.

Þetta var hins vegar kvöldið hans Durant sem var einnig með 3 stolna bolta og 2 varin skot. Hann fór aldrei út af vellinum og hitti úr 16 af 23 skotum utan af velli og úr 13 af 16 vítaskotum.

„Ég veit að margir sjá mig bara sem mikinn skorara en í öllum liðunum sem ég hef spilað með þá hef ég verið beðinn um að gera eiginlega allt frá því að frákasta, spila vörn í það að skora. Ég geri það kannski ekki alltaf en ég get gert allt,“ sagði Kevin Durant eftir leikinn.

Jeff Green var líka frábær með 27 stig og hitti úr 7 af 8 þriggja stiga skotum sínum.

„Meiðslin hafa verið honum erfið og hann er að koma til baka úr hásinarslitum og lenti síðan í þessari tognun aftan í læri. Heimurinn er aftur á móti að sjá það á ný hver er besti leikmaðurinn í heimi,“ sagði Jeff Green.

Durant skoraði 20 stig í fjórða leikhlutanum og mikilvægasta karfa var líklega þriggja stiga karfa hans fimmtíu sekúndum fyrir leikslok sem kom þegar Nets liðið var bara einu stigi yfir. Brooklyn vann lokaleikhlutann með tólf stigum, 33-21, og þar með leikinn með sex stigum. Allt Bucks liðið skoraði bara einu stigi meira en Durant í leikhlutanum.

„Hann er besti leikmaður í heimi akkúrat núna og við þurfum að vinna hann sem eitt lið. Við verðum að verjast honum saman sem lið. Við verðum að skila okkar vinnu í vörninni og gera honum erfitt fyrir eins og við reyndum í kvöld. Vonandi klikkar hann á þessum erfiðu skotum,“ sagði Giannis Antetokounmpo sem var með 34 stig, 12 fráköst og 4 stoðsendingar fyrir Bucks liðið.

Khris Middleton skoraði 25 stig og Jrue Holiday var með 19 stig og 8 stoðsendingar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×