Tómas segir snör viðbrögð skipta höfuðmáli þegar atvik á borð við það sem gerðist í gær gerast. Miðað við það sem hann sá í fréttamiðlum í gær virðist hárrétt hafa verið brugðist við.
„Við vitum það að við líkamshita þá þolir heilinn ekki nema 4 mínútur í hjartastoppi áður en það verða óafturkræfar breytingar á heilafrumum, það skiptir gríðarlegu máli að koma hjartanu í gang,“ segir Tómas í viðtali við fréttastofu.
Aðspurður segir Tómas erfitt að segja til um hvað olli því að Eriksen hné niður í gær. Þó nefnir hann sjúkdóminn hjartavöðvakvilla sem mögulega orsök. Hjartavöðvakvilli veldur þykknun í hjartavöðvum og hjartsláttartruflunum.
Sjúkdómurinn hefur verið í umræðunni undanfarið, sér í lagi í tengslum við íþróttafólk. Ítalir hafa til að mynda sett reglur um að allir atvinnuíþróttamenn undirgangist hjartarannsóknir árlega. Reglurnar voru settar eftir að 39 íþróttamenn létust úr skyndilegu hjartastoppi árið 2019 á ítalíu.
Tómas segir hjartavöðvakvilla geta valdið óreglulegum slætti hjartans, sem getur valdið því að hjartað hætti að dæla blóði til heilans og annarra líffæra. Afleiðing þess er að ,,það slökkni hreinlega á manni,“ samkvæmt Tómasi.
Tómas segir Christian Eriksen heppinn að hafa komist til meðvitundar eftir góð viðbrögð lækna og sjúkraliða á vellinum í gær. Ef sjúklingar komast ekki til meðvitundar fljótt eftir hjartastopp er svokallaðri kælimeðferð beitt. Þá er líkamshiti þeirra lækkaður viljandi til að hægja á efnaskiptum heilans. Með því er hægt að bjarga heilastarfsemi sjúklinganna.