Körfubolti

Bjarni Magnússon: Þessi þrjú litlu atriði spila stóran þátt í þessu tapi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka, var svekktur eftir tapið í kvöld.
Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka, var svekktur eftir tapið í kvöld. Vísir/Bára

Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka, var eðlilega svekktur eftir tap liðsins gegn Val í úrslitaeinvígi Domino's deildar kvenna. Hann segir að liðið hafi gert vel í 37 mínútur í kvöld, en seinustu þrjár mínúturnar hafi farið með leikinn.

,,Þetta er mjög svekkjandi, þetta fer frá okkur á síðustu þremur mínútunum. Við vorum að gera mistök varnarlega sem við vorum ekki búin að gera. Þær fá níu stig úr þremur þristum þar sem við gerum mistök á skiptingum. Stóran hluta leiksins erum við líka í frákastavandræðum en þessar síðustu þrjár mínútur vorum við ekki að gera hlutina nógu vel. Stelpurnar voru búnar að gera mjög vel í 37 mínútur. Ég var mjög ánægður með þær, þær voru á fullu en þessi þrjú litlu atriði spila stóran þátt í þessu tapi,“ sagði Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka eftir leikinn.

Hann segist þó ekki vera sérstaklega ósáttur með leik liðsins í kvöld.

,,Nei, heilt yfir var þetta mjög fínt. Ef við fáum allar til að gera sitt besta þá getum við ekki beðið um meira. Þær vita jafnvel og ég að þessi þrjú mistök sem við gerum varnarlega kosta okkur dálítið leikinn.“

Liðin mætast aftur á þriðjudaginn og Bjarni segir að stelpurnar þurfi að spila eins og þær gerðu mest allan leikinn í kvöld til að vinna þann leik.

,,Við þurfum að spila eins og við vorum að gera í dag. Í dag byrjuðum við sterkt og þetta var hörkuleikur en við verðum að vera einbeittar í fjörutíu mínútur. Þetta eru úrslitin og því verðum við að bæta þessum þremur mínútum við í næsta leik. Við ætlum að ná í fyrsta sigurinn á miðvikudaginn. Það kemur ekkert annað til greina,“ sagði Bjarni að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×