Samkvæmt báðum rannsóknunum muna frumur í beinmerg fólks eftir veirunni og geta gefið frá sér mótefni eftir þörf. Samkvæmt annarri rannsókninni styrkjast þessi mótefni í minnst ár eftir upprunalegt smit eða bólusetningu.
Samkvæmt frétt New York Times um þessar rannsóknir þykir líklegt að þær muni hjálpa til við að kveða niður þann ótta fólks að Covid-19 muni herja reglulega á jarðarbúa, eins og hefðbundið kvef, sem kórónuveirur valda einnig.
Þær kórónuveirur breytast þó töluvert á nokkurra ára fresti.
Í samtali við New York Times segir vísindamaðurinn Michel Nussenzweig, sem kom að annarri rannsókninni, að hann búist við því að fólk sem hafi smitast og verið bólusett verði ónæmt til margra ára.
Hins vegar gæti verið að þeir sem hafi bara verið bólusettir verði ekki með jafn langvarandi vernd. Ónæmisminni virki á mismunandi hátt í tengslum við bólusetningar annarsvegar og náttúrulegt smit hins vegar.
Hann segir það þýða að mögulega muni fólk sem hafi bara verið bólusett þurfa aðra sprautu seinna meir. Það sé þó ekki ljóst enn, en ætti brátt að verða það.
Ekki allir sem hljóta vernd til lengri tíma
Í hinni rannsókninni greindu vísindamenn beinmerg úr nítján manns, um sjö mánuðum eftir að þau smituðust. Fimmtán þeirra báru enn mótefni gegn Covid-19 í frumum í beinmergnum en fjórir ekki.
Það þykir til marks um að það séu ekki allir sem smitast náttúrulega sem fái vernd til lengri tíma.