Myndbandið fræga hefur nú verið selt fyrir 760 þúsund Bandaríkjadali, sem samsvarar um 94 milljónum íslenskra króna. Kaupandinn, sem er nafnlaus en gengur undir notendanafninu 3fmusic, keypti myndandið í NFT formi sem er geymt í bálkakeðju [e. blockchain].
Frá þessu er greint á vef CBS en uppboðið fór fram í gær. Fjölskyldan stóð fyrir uppboði myndbandsins og var slegist um myndbandið á lokastundum þess. Það var svo 3fmusic sem varð hlutskarpastur og tryggði sér eignarréttinn yfir myndbandinu.
Upprunalega myndbandið er með rúmlega 883 milljónir áhorfa á YouTube en það var birt á vefnum þann 22. maí árið 2007. Það hefur nú verið afskráð af vefnum en er enn aðgengilegt og segir í titli þess að „beðið sé eftir NFT-ákvörðun“.
Það er þó ekki aðeins eignarréttur yfir myndbandinu sjálfu sem fylgir með í kaupunum heldur mun eigandinn fá tækifæri til þess að „endurgera“ myndbandið með upprunalegum stjörnum þess; Charlie og Harry.
Fjölskyldan kveðst vona að salan muni hjálpa bræðrunum í framtíðinni en þeir eru nú 15 og 17 ára gamlir. Að öllum líkindum verður söluféð notað í að fjárfesta í menntun þeirra að sögn föður þeirra.