Fótbolti

Berglind hafði betur í Íslendingaslag - Fimmta tap Guðrúnar í röð

Valur Páll Eiríksson skrifar
Berglind Rós Ágústsdóttir.jfif

Fjögur Íslendingalið voru í eldlínunni í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Þrír leikir fóru fram.

Guðrún Arnardóttir var að venju í byrjunarliði Djurgården sem þurfti að sætta sig við svekkjandi tap fyrir Hammarby. 1-1 var þar eftir aðeins átta mínútna leik eftir tvö mörk á tveimur mínútum. Hammarby náði forystunni snemma í síðari hálfleik, 2-1, en hin bandaríska Hayley Dowd jafnaði stundarfjórðungi fyrir leikslok. Emma Jansson skoraði hins vegar það sem reyndist sigurmark Hammarby á 82. mínútu.

Djurgården er því með þrjú stig eftir sex leiki, og hefur tapað hverjum einasta leik eftir sigur í þeim fyrsta. Liðið er með þrjú stig í fallsæti, með lakari markatölu en Piteå sem er stigi ofar.

Berglind Rós Ágústsdóttir byrjaði þá í miðverðinum hjá Örebrö sem vann 4-1 sigur á Växsjö í Íslendingaslag. Andrea Mist Pálsdóttir spilaði fyrsta klukkutímann fyrir síðarnefnda liðið.

Með sigrinum fer Örebrö í 5. sætið með 10 stig en Växsjö er aðeins með eitt stig á botni deildarinnar.

Häcken vann þá 3-0 sigur á Eskiltuna United og er liðið með 13 stig í öðru sæti. Efst er Rosengård, lið Glódísar Perlu Viggósdóttur, með 15 stig en liðið mætir Piteå á morgun. Kristianstad undir stjórn Elísabetar Gunnarsdóttur, með Sif Atladóttur og Sveindísi Jane Jónsdóttur innanborðs, er þá með 11 stig í þriðja sætinu og getur farið upp fyrir Häcken með sigri á AIK á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×