Körfubolti

Booker með ís í æðum á ögurstundu á vítalínunni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Samherjar Devins Booker fagna með honum eftir að hann tryggði Phoenix Suns sigur á Portland Trail Blazers.
Samherjar Devins Booker fagna með honum eftir að hann tryggði Phoenix Suns sigur á Portland Trail Blazers. getty/Christian Petersen

Devin Booker sýndi stáltaugar á vítalínunni þegar hann tryggði Phoenix Suns sigur á Portland Trail Blazers, 118-117, í NBA-deildinni í nótt.

Úrslit leiksins réðust á vítalínunni. Robert Covington hefði getað tryggt Portland sigurinn en klikkaði á tveimur vítaskotum þegar 4,4 sekúndur voru eftir. Í lokasókn Phoenix var brotið á Booker þegar 2,4 sekúndur voru eftir. Hann var ískaldur á vítalínunni, setti bæði vítin niður og kláraði dæmið fyrir Portland.

Booker átti annars ekkert sérstakan leik, skoraði átján stig og klikkaði á tólf af sautján skotum sínum utan af velli. Phoenix er í 2. sæti Vesturdeildarinnar og á enn möguleika á að ná efsta sætinu af Utah Jazz. Chris Paul var stigahæstur í liði Phoenix með 26 stig.

Damian Lillard skoraði 41 stig fyrir Portland sem hefði tryggt sér sæti í úrslitakeppninni með sigri. Fyrir leikinn í nótt hafði Portland unnið fimm leiki í röð.

Miami Heat er eitt heitasta lið NBA um þessar mundir og vann sinn fjórða leik í röð þegar liðið sigraði Philadelphia 76ers, topplið Austurdeildarinnar, 106-94.

Jimmy Butler skoraði 21 stig fyrir Miami gegn sínu gamla liði. Bam Adebayo var með átján stig, tólf fráköst og átta stoðsendingar. Tyler Herro skoraði einnig átján stig. Tobias Harris skoraði 21 stig fyrir Philadelphia.

New York Knicks komst aftur á sigurbraut þegar liðið vann San Antonio Spurs, 102-98. Knicks á enn möguleika á að ná 4. sætinu í Austurdeildinni sem gefur heimavallarrétt í 1. umferð úrslitakeppninnar.

Alec Burks skoraði þrjátíu stig fyrir Knicks og tók tíu fráköst. Julius Randle var með 25 stig, níu fráköst og níu stoðsendingar og RJ Barrett skilaði 24 stigum og níu fráköstum.

Þrátt fyrir tapið er San Antonio öruggt með sæti í umspili um sæti í úrslitakeppninni þar sem Sacramento Kings tapaði fyrir Memphis Grizzlies, 116-110.

Úrslitin í nótt

  • Phoenix 118-117 Portland
  • Miami 106-94 Philadelphia
  • NY Knicks 102-98 San Antonio
  • Charlotte 90-113 LA Clippers
  • Indiana 133-142 Milwaukee
  • Atlanta 116-93 Orlando
  • Chicago 114-102 Toronto
  • Memphis 116-110 Sacramento
  • Minnesota 103-114 Denver

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×