Ljóst er að margir stuðningsmanna Arsenal vilja losna við núverandi eiganda, Bandaríkjamanninn Stan Kroenke. Arsenal er aðeins í 10. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og hefur beðið í 16 ár eftir Englandsmeistaratitli, og ekki bætti úr skák þegar Kroenke ákvað að Arsenal yrði með í ofurdeildinni skammlífu.
Hundruð stuðningsmanna Arsenal söfnuðust saman fyrir utan Emirates-leikvanginn í Lundúnum á föstudagskvöld til að mótmæla Kroenke og meðal annars mátti sjá Kroenke-brúðu hengda. Sama kvöld lýsti auðkýfingurinn Ek yfir áhuga á að kaupa Arsenal.
Daily Telegraph greinir svo frá því í dag að Ek hafi fengið Dennis Bergkamp, Thierry Henry og Patrick Vieira með sér í lið. Það ætti að auka áhuga stuðningsmanna Arsenal enn frekar á því að salan gangi í gegn. Þríeykið gæti svo fengið starf hjá félaginu í kjölfarið.
BREAKING NEWS: Three Arsenal legends 'join Spotify owner Daniel Ek in new bid to buy the club' https://t.co/Ienba9sJfO pic.twitter.com/JwesqXdh4l
— MailOnline Sport (@MailSport) April 26, 2021
Henry, Vieira og Bergkamp voru allir í sigursælu liði Arsenal snemma á þessari öld, sem meðal annars varð Englandsmeistari 2004 án þess að tapa einum einasta leik. Síðan þá hefur Arsenal hins vegar ekki unnið Englandsmeistaratitil. Henry tjáði sig um sitt gamla félag og stjórnunarhætti Kroenke og félaga:
„Þeir hafa verið að reka félagið eins og fyrirtæki, ekki knattspyrnufélag, og þarna sýndu þeir á spilin,“ sagði Henry við Telegraph.
„Þetta félag tilheyrir stuðningsmönnunum. Ég elska félagið og mun styðja það þar til að ég dey, en ég þekki ekki félagið eins og það er núna. Ég botna ekkert í því sem er í gangi núna, að félagið sé að reyna að komast í deild sem yrði lokuð,“ sagði Henry.