Fótbolti

Topp­bar­áttan á Spáni á­fram æsi­spennandi eftir sigra Atlético og Barcelona

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lionel Messi var frábær í liði Barcelona í kvöld.
Lionel Messi var frábær í liði Barcelona í kvöld. EPA-EFE/ENRIC FONTCUBERTA

Bæði Atlético Madrid og Barcelona unnu leiki sína í La Liga, spænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, í kvöld. Spennan á toppi deildarinnar heldur því áfram.

Atlético vann góðan 2-0 sigur á Huesca. Angel Correa skoraði undir lok fyrri hálfleiks og Yannick Carrasco bætti öðru markinu við undir lok leiks. Marcos Llorente lagði bæði mörkin upp. Huesca sá aldrei til sólar og á öðrum degi hefði Atlético bætt við fleiri mörkum.

Barcelona vann Getafe 4-2 í fjörugum leik á Camp Nou í kvöld. Lionel Messi skoraði fyrsta mark leiksins á 8. mínútu. Fjórum mínútum síðar var staðan orðin 1-1 en Clement Lenglet, miðvörður Börsunga, varð þá fyrir því óláni að skora sjálfsmark. Á 28. mínútu komust heimamenn yfir en þá varð Sofian Chakla fyrir því óláni að skora sjálfsmark.

Messi bætt svo við þriðja marki Barcelona fimm mínútum síðar og staðan 3-1 í hálfleik. Enes Unal minnkaði muninn í 3-2 með marki úr vítaspyrnu áður en Ronald Araujo gulltryggði 4-2 sigur heimamanna á 87. mínútu. Í uppbótartíma fengu heimamenn svo vítaspyrnu. Antoine Griezmann fór á punktinn og skoraði af öryggi. Staðan orðin 5-2 og reyndust það lokatölur.

Sem fyrr er Atlético á toppi deildarinnar, nú með 73 stig að loknum 32 leikjum. Real Madrid eru í 2. sæti með 70 stig en Barcelona er með 68 stig í 3. sæti og eiga leik til góða á bæði liðin frá Madríd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×