Körfubolti

Úlfarnir sáu ekki til sólar gegn Clippers og stórleikur Doncic dugði skammt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Reggie Jackson og Paul George, leikmenn Los Angeles Clippers, fagna í leiknum gegn Minnesota Timberwolves í nótt.
Reggie Jackson og Paul George, leikmenn Los Angeles Clippers, fagna í leiknum gegn Minnesota Timberwolves í nótt. ap/Mark J. Terrill

Los Angeles Clippers átti ekki í miklum vandræðum með að leggja lélegasta lið Vesturdeildar NBA, Minnesota Timberwolves, að velli í nótt. Lokatölur 124-105, Clippers í vil.

Sex leikmenn Clippers skoruðu þrettán stig eða meira í leiknum. Paul George var stigahæstur með 23 stig.

Clippers náði mest 38 stiga forskoti en Úlfarnir náðu aðeins að laga stöðuna í 4. leikhluta sem þeir unnu með sextán stigum. Clippers er áfram í 3. sæti Vesturdeildarinnar.

Baráttan um sæti í umspili í Austurdeildinni harðnar enn en í nótt vann Toronto Raptors mikilvægan sigur á Oklahoma City Thunder, 112-106. 

Chris Boucher skoraði 31 stig fyrir Toronto og tók ellefu fráköst. Luguentz Dort skoraði 29 stig fyrir Oklahoma en 21 þeirra kom í 1. leikhluta.

Toronto er í 10. sæti Austurdeildarinnar, síðasta sætinu sem gefur þátttökurétt í umspilinu. Oklahoma, sem hefur tapað tíu leikjum í röð, er í þrettánda og þriðja neðsta sæti Vesturdeildarinnar.

Stórleikur Lukas Doncic dugði Dallas Mavericks ekki til sigurs gegn Sacramento Kings. Lokatölur 107-124, Kóngunum í vil.

Doncic skoraði 37 stig og tók átta fráköst. Dorian Finney-Smith skoraði 22 stig en hinir þrír í byrjunarliði Dallas skoruðu aðeins samtals sextán stig. D'Aaron Fox skoraði þrjátíu stig og gaf tólf stoðsendingar fyrir Sacramento.

Úrslitin í nótt

  • LA Clippers 124-105 Minnesota
  • Toronto 112-106 Oklahoma
  • Dallas 107-121 Sacramento
  • Charlotte 109-101 Portland
  • Orlando 110-114 Houston

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×