Körfubolti

Brown með sögulega frammistöðu þegar Boston vann stórveldaslaginn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Los Angeles Lakers réðu ekkert við Jaylen Brown.
Leikmenn Los Angeles Lakers réðu ekkert við Jaylen Brown. ap/Ringo H.W. Chiu

Boston Celtics sigraði erkifjendur sína í Los Angeles Lakers, 113-121, í stórleik næturinnar í NBA-deildinni í körfubolta.

Jaylen Brown var í miklum ham í liði Boston og skoraði fjörutíu stig og hitti úr sautján af tuttugu skotum sínum. Hann tók einnig níu fráköst. Brown er fyrsti leikmaðurinn í sögu Boston sem skorar fjörutíu stig í leik og er með 85 prósent skotnýtingu.

Boston náði mest 27 stiga forskoti en var næstum því búið að kasta henni frá sér undir lokin. Liðið hélt hins vegar út og vann fimmta leikinn í röð.

LeBron James og Anthony Davis eru enn fjarri góðu gamni hjá Lakers vegna meiðsla. Talen Horton-Tucker var stigahæstur í liði Lakers með nítján stig en enginn í byrjunarliðinu skoraði meira en átján stig.

Milwaukee Bicks lagði Atlanta Hawks að velli, 109-120. Giannis Antetokounmpo sneri aftur í lið Milwaukee eftir sex leikja fjarveru vegna meiðsla og skoraði fimmtán stig. Jrue Holiday var stigahæstur í liði Milwaukee með 23 stig.

Stephen Curry heldur áfram að spila eins og engill fyrir Golden State Warriors og skoraði 33 stig þegar liðið vann Cleveland Cavaliers, 101-119, á útivelli. Þetta var fjórði sigur Golden State í röð.

Curry hefur skorað að minnsta kosti þrjátíu stig í níu leikjum í röð. Hann setti met með því að hitta úr 29 þriggja stiga skotum í síðustu þremur leikjum en var frekar kaldur fyrir utan í nótt. Átta fyrstu skot Currys fyrir utan þriggja stiga línuna geiguðu og hann endaði með fjóra þrista í þrettán tilraunum.

Þá vann Phoenix Suns Sacramento Kings á heimavelli, 122-114. Deandre Ayton skoraði 26 stig og tók ellefu fráköst í liði Phoenix sem er í 2. sæti Vesturdeildarinnar. Ayton hitti úr tíu af ellefu skotum sínum og nýtti öll sex vítaskot sín.

Úrslitin í nótt

  • LA Lakers 113-121 Boston
  • Atlanta 109-120 Milwaukee
  • Cleveland 101-119 Golden State
  • Phoenix 122-114 Sacramento

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×