Real á toppinn eftir sigur í El Clásico

Anton Ingi Leifsson skrifar
Þeir voru glaðir í kvöld leikmenn Real.
Þeir voru glaðir í kvöld leikmenn Real. Oscar J. Barroso/Getty

Real Madrid er komið á toppinn, tímabundið að minnsta kosti, eftir 2-1 sigur á Barcelona í stórleik helgarinnar í spænska boltanum.

Fyrsta markið kom eftir þrettán mínútna leik. Lucas Vasquez átti þá góðan sprett, kom boltanum fyrir markið þar sem Karim Benzema kláraði færið frábærlega.

Stundarfjórðungi síðar hafði Toni Kroos tvöfaldað forystuna. Aukaspyrna hans hafði viðkomu í varnarveggnum og Jordi Alba náði ekki að koma í veg fyrir markið á markalínunni.

Federico Valverde var nálægt því að skora þriðja mark Real í fyrri hálfleiknum en þrumuskot hans fór í stöngina. Leo Messi skaut svo boltanum í slá skömmu fyrir hlé en 2-0 í hálfleik.

Börsungar minnkuðu muninn eftir klukkutíma leik. Markið kom úr óvæntri átt en það skoraði Oscar Mingueza eftir fyrirgjöf frá hinum bakverðinum Jordi Alba.

Gestirnir frá Katalóníu sóttu í sig veðrið eftir markið. Casemiro fékk sitt annað gula spjald á 90. mínútu.

Börsungar skutu í slá á síðustu sekúndu leiksins en fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur 2-1.

Eftir sigurinn er Real með 66 stig á toppnum en grannar þeirra í Atletico eru einnig með 66 stig. Þeir eru með lakari markahlutfall og spila gegn Real Betis á morgun.

Börsungar eru í þriðja sætinu með 65 stig en Real og Barcelona eiga eftir að spila átta leiki en Atletico Madrid níu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira