Ofhugsanir geta til dæmis snúist um samskipti við annað fólk, þar sem hugurinn eins og „festist“ í hugsunum um liðin samskipti eða samtöl sem mögulega eru framundan.
Við eigum það líka til að ofhugsa erfið verkefni. Í stað þess að ráðast í þau eða reyna að leysa úr þeim, hugsum við bara og hugsum og hugsum (og höfum áhyggjur!) án þess að gera neitt.
Kannist þið við þetta?
Hér eru nokkur góð ráð sem geta hjálpað okkur að stjórna þessum ofhugsunum betur þegar að við erum í vinnunni.
Að treysta innsæinu
Of sjaldan nýtum við þann meðfædda eiginleika okkar að treysta innsæinu. Innsæið okkar er hins vegar eiginleiki sem getur nýst okkur vel við vinnu og úrlausn verkefna. Það hvernig innsæið okkur segir okkur til, er oftar en ekki besta leiðin.
„Hik er sama og tap“ segir máltækið, en það er einmitt það sem gerir það oft að verkum að við nýtum þennan eiginleika of sjaldan. Við hikum, ofhugsum og endum með að vantreysta því sem innsæið er að segja okkur.
Eitt ráð til að sporna við þessum ofhugsunum er að verða betur meðvituð um innsæið okkar þannig að þegar að hugurinn byrjar að hugsa og hugsa og hugsa (og hafa áhyggjur!), getum við frekar spurt okkur: Hvað segir innsæið mitt?
Að einbeita okkur að því að finna innra með okkur hvað innsæið er að segja, leiðir okkur oft áfram.
Rökhugsunin verður skýrari og við áttum okkur á því að valkostirnir eru kannski tveir, en ekki 100 eins og ofhugsanir geta framkallað! Fyrir vikið erum við fljótari að taka ákvarðanir og með skýrari fókus á því hvað við ætlum okkur að gera.
Verkefnið „að róa hugann“
Við vinnum best þegar að við erum í góðu andlegu jafnvægi. Úthvíld og ánægð. Að ofhugsa er hins vegar mikill streituvaldur og getur því hæglega dregið úr afköstunum okkar. Tíminn flýgur áfram og við verðum örþreytt því ofhugsanirnar sem hugurinn er upptekin við allan daginn, tekur frá okkur orku.
Enda erum við oft að multitaska þegar að við erum að ofhugsa.
Sinnum verkefnum og reynum að standa okkar pligt, á meðan hugurinn er á milljón að ofhugsa og hafa áhyggjur. Að þessu leytinu má segja að ofhugsanir séu í senn orkuþjófur og tímaþjófur.
Þannig að til þess að vinna vel, þurfum við að byrja á því að róa hugann. Sumir gera það með hugleiðslu, fara í ræktina (þegar það er leyfilegt) eða göngutúr. Af stressa sig heima með góðu baði. Anda djúpt.
Hver og einn getur fundið sína leið en aðalmálið er að muna eftir því að í daglegri rútínu þarf að gefa sér tíma í þetta verkefni. Dagsformið okkar og allt flæðið í verkefnum og vinnu verður betra fyrir vikið.
Að taka ákvörðun um að framkvæma
Við heyrum oft í samskiptum við hvort annað að öll eigum við það til að ofhugsa. Höfum jafnvel heyrt einhvern sem skiptir um starf segja „já, ég var búin að velta því fyrir mér í mörg ár að hætta í þessari vinnu.“ Mörg ár?
Stundum veljum við ofhugsanir einfaldlega vegna þess að það er ákveðinn þægindarammi að vera í. Á meðan við erum bara að hugsa, erum við ekki að framkvæma eða taka af skarið. En viljum við eyða tímanum í að hugsa án þess að framkvæma?
Í vinnu erum við að minnsta kosti ekki að gera okkur neinn greiða með því. Það gerir starfsframanum okkar ekki gott og eykur á allt álag í vinnunni að vera í ofanálag að ofhugsa um eitthvað endalaust.
Að taka ákvörðun um að framkvæma frekar en að ofhugsa er því eitthvað sem við þurfum að semja um við okkur sjálf. Því ofhugsanir geta leitt til stöðnunar. Vissulega hræðast það margir að það að taka ákvörðun gæti þýtt að ákvörðunin sem tekin er, sé ekki nógu góð eða að minnsta kosti ekki sú besta. En hér gildir máltækið „Ekki gera ekki neitt,“ því það að taka aldrei af skarið er í rauninni versta staðan að vera í.