Körfubolti

NBA meistarar Lakers styrkja sig undir körfunni: „Við urðum miklu betri“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andre Drummond hefur fjórum sinnum verið frákastakóngur NBA-deildarinnar en hann er með 13,8 fráköst að meðaltali í 624 leikjum. Hann hefur aðeins spilað átta leiki í úrslitakeppni á ferlinum.
Andre Drummond hefur fjórum sinnum verið frákastakóngur NBA-deildarinnar en hann er með 13,8 fráköst að meðaltali í 624 leikjum. Hann hefur aðeins spilað átta leiki í úrslitakeppni á ferlinum. Getty/Michael Reaves

LeBron James og Anthony Davis eru búnir að fá einn allra besta frákastara NBA deildarinnar í liðið sitt.

Þetta var góð helgi fyrir NBA körfuboltaliðið Los Angeles Lakers liðið eftir erfiða viku þar á undan. Lakers liðið vann báða leiki sína um helgina og náði einnig að semja við eftirsóttan miðherja fyrir lokakafla tímabilsins og úrslitakeppnina.

Miðherjinn öflugi Andre Drummond hefur ákveðið að skrifa undir hjá Los Angeles Lakers en eftir að hann fékk sig lausan frá Cleveland Cavaliers voru Los Angeles Clippers, New York Knicks, Boston Celtics og Charlotte Hornets einnig á eftir honum.

„Við erum allir mjög ánægður með að fá til okkar öflugan leikmann eins og Andre Drummond.

Hann er einn af bestu miðherjunum í deildinni og maður sem allir varnarþjálfarar þurfa að hugsa um. Þeir verða átta sig hvernig þeir ætla að ráða við hann um leið og þeir eru að reyna að hægja á Anthony Davis, LeBron James og bakvörðum okkar,“ sagði Frank Vogel, þjálfari Los Angeles Lakers.

„Hann mun hjálpa okkur mikið í næstu framtíð og getur haft mikil áhrif á leikina á báðum megin vallarins. Við urðum miklu betri við komu hans,“ sagði Vogel.

Andre Drummond hafði ekki spilað síðan 12. febrúar þegar forráðamenn Cleveland Cavaliers ákváðu að reyna að skipta honum eða kaupa upp samninginn hans. Það síðara varð niðurstaðan. Drummond var með 17,5 stig og 13,5 fráköst að meðaltali í 25 byrjunarliðsleikjum með Cleveland.

Drummond spilaði í átta tímabil með Detroit Pistons áður en honum var skipt til Cavaliers í fyrra. Hann var tvisvar sinnum valinn í stjörnuliðið sem leikmaður Pistons.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×