Vísir greindi frá því að knattspyrnusamband Evrópu hefði tekið saman lista yfir einn leikmann úr hverju liði sem vert væri að fylgjast með á mótinu. Ísak Bergmann Jóhannesson var sá Íslendingur sem var nefndur til sögunnar.
Nú hefur íþróttamiðillinn The Athletic tekið í sama streng en íþróttavefmiðillinn birti tíu leikmenn sem áhorfendur ættu svo sannarlega ekki að láta fram hjá sér fara.
Ísak Bergmann er þar á meðal ásamt tveimur öðrum úr riðli okkar Íslendinga. Fedor Chalov – fremherji Rússlands sem við fengum að kynnast aðeins of vel í 4-1 tapi Íslands í gær – og svo hinn ungi Wahid Faghir hjá Danmörku.
Í greininni segir að Ísak Bergmann sé eftirsóttur af fjölda stórliða Evrópu, þar á meðal Juventus, Inter Milan og Manchester United.
„Þess örvfætti leikmaður var byrjunarliðsmaður hjá Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og er einkar fjölhæfur. Getur hann spilað annað hvort úti á væng eða miðsvæðis. Þrátt fyrir ungan aldur er hann mjög yfirvegaður á boltann og tekur reglulega þátt í sóknaruppbyggingu liðsins með stuttum, snöggum sendingum,“ segir í grein Athletic.
Scamacca scores the first goal for Italy in the #U21EURO Championship!
— Mark Carey (@MarkCarey93) March 24, 2021
I looked in to his profile below, as a key player to look out for in the tournament https://t.co/jVm8cpWzIo
„Sköpunargetan helst í hendur við yfirvegun Ísaks á boltann en hann lagði alls upp níu mörk í deildinni á síðasta tímabili. Miðað við spilaðar mínútur þá var hann í sjöunda sæti yfir flestar stoðsendingar í sænsku úrvalsdeildinni.“
„Samkvæmt algrím smarterscout þá svipar leikstíll Ísaks Bergmanns til Luka Modrić hjá Real Madrid, miðjumaður sem tengir vörn og sókn vel saman – ekki slæmur leikmaður til að vera líkt við.“
Ísak Bergmann náði því miður lítið að sýna í slæmu tapi íslenska liðsins gegn Rússum í gær. Eins og áður kom fram hóf hann leik á hægri vængnum en hver veit nema hann fái tækifæri á miðjunni í næsta leik.