Niðurstöðurnar benda til að bóluefnið veiti einungis tíu prósenta vernd gegn afbrigðinu sem fannst fyrst í Suður-Afríku og er talið vera meira smitandi en flest önnur.
Greint er frá þessu á vef Bloomberg en tvö þúsund einstaklingar tóku þátt í rannsókninni þar sem annar hópurinn fékk bóluefnið og hinn lyfleysu en enginn þátttakandi veiktist alvarlega af Covid-19 á rannsóknartímabilinu. Er talið að ungur aldur þátttakenda hafi þar spilað stóran þátt en miðgildi aldurs var 30 ár. Eldra fólk er almennt líklegra til að veikjast alvarlega af Covid-19.
Í ljósi þessa svarar rannsóknin ekki spurningum um hversu mikla vernd bóluefnið veitir gegn alvarlegum veikindum af völdum kórónuveiruafbrigðisins eða dragi úr líkum á sjúkrahússinlögn.
Heilbrigðisyfirvöld í Suður-Afríku stöðvuðu notkun bóluefnisins tímabundið þar í landi eftir að bráðabirgðagögn úr umræddri rannsókn voru birt í febrúar. Gögnin sem voru birt í fræðiritinu New England Journal of Medicine í dag voru ítarlegri og hefur rannsóknin þar að auki verið ritrýnd. AstraZeneca gaf út í febrúar að framleiðandinn vænti þess að ný gerð bóluefnisins verði tilbúin í haust sem veiti betri vernd gegn hinu suðurafríska afbrigði.
Fregnirnar koma á erfiðum tíma fyrir lyfjaframleiðandann en notkun bóluefnis AstraZeneca hefur víða verið stöðvuð tímabundið í Evrópu á meðan útilokað er að orsakatengsl séu á milli notkunar þess og blóðtappa.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin sagði fyrir helgi að ekki væri ástæða til að hætta notkun bóluefnisins og Lyfjastofnun Evrópu gaf það út í dag að hún teldi ávinning af notkun þess vegi þyngra en hættan á mögulegum aukaverkunum.