Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Þór Ak. 86-91 | Fyrsti útisigur Þórsara kom í Ásgarði Ingvi Þór Sæmundsson skrifar 12. mars 2021 20:53 Ivan Aurrecoechea átti stórkostlegan leik gegn Stjörnunni. vísir/vilhelm Þór lyfti sér upp úr fallsæti Domino‘s deildar karla með óvæntum sigri á Stjörnunni í Ásgarði í kvöld. Lokatölur 86-91, Þórsurum í vil. Þetta var fyrsti útisigur þeirra á tímabilinu. Þórsarar byrjuðu leikinn illa en lögðu aldrei árar í bát. Þeir unnu sig jafnt og þétt inn í leikinn og í seinni hálfleik voru þeir svo betri aðilinn og héldu Stjörnumönnum aðeins í 33 stigum. Ivan Aurrecoechea átti enn einn stórleikinn fyrir Þór, skoraði 29 stig og tók sextán fráköst. Ingvi Þór Guðmundsson átti einnig frábæran leik og skoraði 22 stig. Tómas Þórður Hilmarsson skoraði 22 stig fyrir Stjörnuna en þau komu öll í fyrri hálfleik. Eftir tvo sigra í röð er Þór kominn upp í 8. sæti deildarinnar. Þórsarar eiga líka leik til góða. Stjarnan er áfram í 2. sætinu. Stjörnumenn byrjuðu leikinn miklu betur, hittu frábærlega fyrir utan og skoruðu nánast í hverri sókn. Þeir náðu mest sextán stiga forskoti, 28-12. Leikur Þórs lagaðist eftir því sem leið á 1. leikhluta og staðan að honum loknum var 33-24 eftir fjögurra stiga sókn frá Ingva. Þórsarar hertu vörnina í 2. leikhluta. Þeir voru fljótlega komnir með þrjár villur en þeir fengu enga slíka í 1. leikhluta sem var lýsandi fyrir kurteisan varnarleik þeirra. Þór skoraði tíu stig í röð og náði svo að minnka muninn í eitt stig, 36-35, um miðjan 2. leikhluta. Þá tók Stjarnan við sér og kláraði fyrri hálfleikinn betur, skoraði sautján af síðustu 22 stigum hans og var yfir í hálfleik, 53-42. Tómas Þórður fór hamförum í fyrri hálfleik og skoraði 22 stig. Fyrir leikinn hafði hann samtals skorað sjö stig í vetur. Hann fékk stærra hlutverk í fjarveru Alexanders Lindqvist sem er farinn heim til Svíþjóðar af persónulegum ástæðum. Stjarnan var áfram með frumkvæðið framan í 3. leikhluta en Þór var aldrei langt undan. Gestirnir hleyptu heimamönnum aldrei frá sér og um miðbik 3. leikhluta tók Ingvi svo yfir, skoraði átta stig í röð og kom Þór yfir í fyrsta sinn í leiknum, 67-69. Dedrik Basile fann sig einnig vel í 3. leikhluta og undir lok hans kom hann Þór fjórum stigum yfir, 71-75. En ótrúlegur flautuþristur Ægis Þórs Steinarssonar þýddi að Stjarnan var bara einu stigi undir fyrir lokafjórðunginn, 74-75. Þetta sló Þórsara ekki út af laginu, þvert á móti. Þeir héldu sama dampi og í 3. leikhluta og komust mest níu stigum yfir, 78-87. Stjarnan skoraði þá sex stig í röð og minnkaði muninn í tvö stig, 85-87. Aurrecoechea kom svo Þór í 85-89 þegar 29 sekúndur voru eftir og þá var björninn unninn. Stjarnan fékk tækifæri til að komast aftur betur inn í leikinn á lokakaflanum en opin skot og víti fóru í súginn. Á endanum munaði fimm stigum á liðunum, 86-91, og frækinn Þórssigur staðreynd. Af hverju vann Þór? Eftir auma vörn í 1. leikhluta hertu Þórsarar skrúfurnar á þeim enda vallarins og í seinni hálfleik héldu þeir Stjörnumönnum í aðeins 33 stigum. Gestirnir voru óþreytandi, hrikalega duglegir og viljugir, óðu í öll fráköst og tóku þau flest. Þeir unnu frákastabaráttuna, 49-30, og tóku fimmtán sóknarfráköst. Þá snerist þriggja stiga nýting liðanna við eftir hlé. Stjörnumenn kólnuðu fyrir utan á meðan Þórsarar settu niður stór skot. Hverjir stóðu upp úr? Aurrecoechea hefur átt marga góða leiki í vetur en þessi var einn sá besti. Spánverjinn skoraði 29 stig, tók sextán fráköst og hitti úr þrettán af nítján skotum sínum. Ingvi átti frábærar rispur og er svo sannarlega góð viðbót við Þórsliðið. Hann skoraði 22 stig og setti niður fimm þriggja stiga skot. Guy Landry Edi var óþreytandi og reif niður ellefu fráköst, Andrius Globys var mikilvægur og Basile stjórnaði sókn Þórs vel auk þess að skora fimmtán stig og gefa átta stoðsendingar. Tómas Þórður var magnaður í fyrri hálfleik en það slökknaði á honum í þeim seinni. Ægir átti góða kafla og endaði með ellefu stig og ellefu stoðsendingar. Hvað gekk illa? Stjörnumenn voru bakaðir í frákastabaráttunni en stóru mennirnir þeirra, Hlynur Bæringsson, Austin Brodeur og Tómas Þórður, tóku aðeins þrettán fráköst samtals. Sóknarleikur Stjörnunnar var góður í fyrri hálfleik þar sem boltinn gekk vel á milli manna en í seinni hálfleik var lítið að frétta á þeim enda vallarins. Vörn Þórs í upphafi leiks var afar slök en lagaðist mikið eftir því sem á leikinn leið. Hvað gerist næst? Það er skammt stórra högga á milli hjá Þórsurum en á sunnudaginn mæta þeir Haukum í Ólafssal. Eftir þann leik verða öll liðin deildinni búin að leika fjórtán leiki. Á fimmtudaginn mætir Stjarnan hinu Þórsliðinu í Þorlákshöfn, og degi síðar fær Þór ÍR í heimsókn. Arnar: Létum fara illa með okkur í fráköstunum Arnar Guðjónsson sagði að Þórsarar hefðu átt sigurinn skilið.vísir/hulda margrét Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, var skiljanlega svekktur eftir tap sinna manna fyrir Þór í kvöld. „Við byrjuðum mjög illa í vörninni í seinni hálfleik og fengum á okkur 33 stig í 3. Leikhluta,“ sagði Arnar. „Við gerðum svolítið af mistökum og létum fara illa með okkur í fráköstunum. Svo hittum við illa.“ Arnari fannst Þórsarar komust full auðveldlega í gegnum vörn Stjörnumanna í seinni hálfleik. „Þeir komumst inn í teiginn, stóru mennirnir spiluðu á milli sín og fóru illa með okkur í sóknarfráköstunum. Svo settu þeir niður skot sem voru erfið,“ sagði hann. „Þetta er mjög svekkjandi en ég óska Þórsurum til hamingju. Þeir áttu sigurinn skilið. Þeir voru orkumeiri og kraftur í þeim.“ Alexander Lindqvist lék ekki með Stjörnunni í kvöld. Að sögn Arnars er hann farinn heim til Svíþjóðar af persónulegum ástæðum. Arnar sagðist ekki vita hvenær Lindqvist sneri aftur til Stjörnunnar. Bjarki: Fannst við vera betra liðið Bjarki Ármann Oddsson var í skýjunum eftir sigurinn á Stjörnumönnum.vísir/vilhelm Bjarki Ármann Oddsson, þjálfari Þórs, ljómaði eins og sól í heiði eftir sigur sinna manna á Stjörnunni í kvöld. Þetta var fyrsti útisigur Þórsara á tímabilinu. Bjarki hrósaði sínum mönnum í hástert eftir leikinn, sérstaklega Ingva Þór Guðmundssyni sem kom óvænt til Þórs eftir að hafa verið látinn fara frá Haukum. Bjarki er ánægður með þá búbót og gat ekki stillt sig um að skjóta á þjálfara Hauka, Israel Martin. „Strákarnir stóðu sig frábærlega og þetta var algjör liðssigur. Það er gaman að Ingvi skori 22 stig og þjálfarann sem vildi hann ekki er uppi í stúku. Þetta sýnir hversu frábær leikmaður hann er og guðsgjöf fyrir Þór,“ sagði Bjarki. Þórsarar spiluðu heldur lina vörn í 1. leikhluta þar sem þeir fengu á sig 33 stig. „Við létum finna meira fyrir okkur. Við fengum ekki villu í 1. leikhluta og hugarfarið breyttist. Auðvitað kom Tommi [Þórður Hilmarsson] okkur svakalega á óvart með 22 stig. Hann var alveg stórkostlegur í fyrri hálfleik,“ sagði Bjarki. Eftir að Þór komst yfir var þjálfarinn sannfærður um að þeir myndu landa sigrinum. „Við vitum að Stjarnan rúllar mikið og getur misst taktinn. Ég sagði strákunum að halda einbeitingu, það skipti ekki máli þótt við værum að tapa með tíu stigum, við kæmum alltaf til baka. Um leið og við komumst yfir fundu strákarnir að þetta væri komið. Mér fannst við vera betra liðið í dag. Þeir söknuðu örugglega Alexanders Lindqvist sem er búinn að spila frábærlega fyrir þá,“ sagði Bjarki. Hann var virkilega sáttur með liðsheild Þórsara í kvöld og sagðir að allir sem komu við sögu í leiknum hafi lagt í púkkið. „Guy [Landry Edi] stóð sig frábærlega í því sem hann á að gera, Ivan [Aurrecoechea] auðvitað stórkostlegur eins og alltaf, Andrius [Globys] er límið í liðinu, Dedrick [Basile] sprengir upp varnirnar, Srdjan [Stojanovic] var stórkostlegur þótt hann hafi ekki hitt. Strákarnir sem komu af bekknum, Hlynur [Freyr Einarsson] og Raggi [Ágústsson] lögðu sitt af mörkum,“ sagði Bjarki hæstánægður að lokum. Dominos-deild karla Þór Akureyri Stjarnan
Þór lyfti sér upp úr fallsæti Domino‘s deildar karla með óvæntum sigri á Stjörnunni í Ásgarði í kvöld. Lokatölur 86-91, Þórsurum í vil. Þetta var fyrsti útisigur þeirra á tímabilinu. Þórsarar byrjuðu leikinn illa en lögðu aldrei árar í bát. Þeir unnu sig jafnt og þétt inn í leikinn og í seinni hálfleik voru þeir svo betri aðilinn og héldu Stjörnumönnum aðeins í 33 stigum. Ivan Aurrecoechea átti enn einn stórleikinn fyrir Þór, skoraði 29 stig og tók sextán fráköst. Ingvi Þór Guðmundsson átti einnig frábæran leik og skoraði 22 stig. Tómas Þórður Hilmarsson skoraði 22 stig fyrir Stjörnuna en þau komu öll í fyrri hálfleik. Eftir tvo sigra í röð er Þór kominn upp í 8. sæti deildarinnar. Þórsarar eiga líka leik til góða. Stjarnan er áfram í 2. sætinu. Stjörnumenn byrjuðu leikinn miklu betur, hittu frábærlega fyrir utan og skoruðu nánast í hverri sókn. Þeir náðu mest sextán stiga forskoti, 28-12. Leikur Þórs lagaðist eftir því sem leið á 1. leikhluta og staðan að honum loknum var 33-24 eftir fjögurra stiga sókn frá Ingva. Þórsarar hertu vörnina í 2. leikhluta. Þeir voru fljótlega komnir með þrjár villur en þeir fengu enga slíka í 1. leikhluta sem var lýsandi fyrir kurteisan varnarleik þeirra. Þór skoraði tíu stig í röð og náði svo að minnka muninn í eitt stig, 36-35, um miðjan 2. leikhluta. Þá tók Stjarnan við sér og kláraði fyrri hálfleikinn betur, skoraði sautján af síðustu 22 stigum hans og var yfir í hálfleik, 53-42. Tómas Þórður fór hamförum í fyrri hálfleik og skoraði 22 stig. Fyrir leikinn hafði hann samtals skorað sjö stig í vetur. Hann fékk stærra hlutverk í fjarveru Alexanders Lindqvist sem er farinn heim til Svíþjóðar af persónulegum ástæðum. Stjarnan var áfram með frumkvæðið framan í 3. leikhluta en Þór var aldrei langt undan. Gestirnir hleyptu heimamönnum aldrei frá sér og um miðbik 3. leikhluta tók Ingvi svo yfir, skoraði átta stig í röð og kom Þór yfir í fyrsta sinn í leiknum, 67-69. Dedrik Basile fann sig einnig vel í 3. leikhluta og undir lok hans kom hann Þór fjórum stigum yfir, 71-75. En ótrúlegur flautuþristur Ægis Þórs Steinarssonar þýddi að Stjarnan var bara einu stigi undir fyrir lokafjórðunginn, 74-75. Þetta sló Þórsara ekki út af laginu, þvert á móti. Þeir héldu sama dampi og í 3. leikhluta og komust mest níu stigum yfir, 78-87. Stjarnan skoraði þá sex stig í röð og minnkaði muninn í tvö stig, 85-87. Aurrecoechea kom svo Þór í 85-89 þegar 29 sekúndur voru eftir og þá var björninn unninn. Stjarnan fékk tækifæri til að komast aftur betur inn í leikinn á lokakaflanum en opin skot og víti fóru í súginn. Á endanum munaði fimm stigum á liðunum, 86-91, og frækinn Þórssigur staðreynd. Af hverju vann Þór? Eftir auma vörn í 1. leikhluta hertu Þórsarar skrúfurnar á þeim enda vallarins og í seinni hálfleik héldu þeir Stjörnumönnum í aðeins 33 stigum. Gestirnir voru óþreytandi, hrikalega duglegir og viljugir, óðu í öll fráköst og tóku þau flest. Þeir unnu frákastabaráttuna, 49-30, og tóku fimmtán sóknarfráköst. Þá snerist þriggja stiga nýting liðanna við eftir hlé. Stjörnumenn kólnuðu fyrir utan á meðan Þórsarar settu niður stór skot. Hverjir stóðu upp úr? Aurrecoechea hefur átt marga góða leiki í vetur en þessi var einn sá besti. Spánverjinn skoraði 29 stig, tók sextán fráköst og hitti úr þrettán af nítján skotum sínum. Ingvi átti frábærar rispur og er svo sannarlega góð viðbót við Þórsliðið. Hann skoraði 22 stig og setti niður fimm þriggja stiga skot. Guy Landry Edi var óþreytandi og reif niður ellefu fráköst, Andrius Globys var mikilvægur og Basile stjórnaði sókn Þórs vel auk þess að skora fimmtán stig og gefa átta stoðsendingar. Tómas Þórður var magnaður í fyrri hálfleik en það slökknaði á honum í þeim seinni. Ægir átti góða kafla og endaði með ellefu stig og ellefu stoðsendingar. Hvað gekk illa? Stjörnumenn voru bakaðir í frákastabaráttunni en stóru mennirnir þeirra, Hlynur Bæringsson, Austin Brodeur og Tómas Þórður, tóku aðeins þrettán fráköst samtals. Sóknarleikur Stjörnunnar var góður í fyrri hálfleik þar sem boltinn gekk vel á milli manna en í seinni hálfleik var lítið að frétta á þeim enda vallarins. Vörn Þórs í upphafi leiks var afar slök en lagaðist mikið eftir því sem á leikinn leið. Hvað gerist næst? Það er skammt stórra högga á milli hjá Þórsurum en á sunnudaginn mæta þeir Haukum í Ólafssal. Eftir þann leik verða öll liðin deildinni búin að leika fjórtán leiki. Á fimmtudaginn mætir Stjarnan hinu Þórsliðinu í Þorlákshöfn, og degi síðar fær Þór ÍR í heimsókn. Arnar: Létum fara illa með okkur í fráköstunum Arnar Guðjónsson sagði að Þórsarar hefðu átt sigurinn skilið.vísir/hulda margrét Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, var skiljanlega svekktur eftir tap sinna manna fyrir Þór í kvöld. „Við byrjuðum mjög illa í vörninni í seinni hálfleik og fengum á okkur 33 stig í 3. Leikhluta,“ sagði Arnar. „Við gerðum svolítið af mistökum og létum fara illa með okkur í fráköstunum. Svo hittum við illa.“ Arnari fannst Þórsarar komust full auðveldlega í gegnum vörn Stjörnumanna í seinni hálfleik. „Þeir komumst inn í teiginn, stóru mennirnir spiluðu á milli sín og fóru illa með okkur í sóknarfráköstunum. Svo settu þeir niður skot sem voru erfið,“ sagði hann. „Þetta er mjög svekkjandi en ég óska Þórsurum til hamingju. Þeir áttu sigurinn skilið. Þeir voru orkumeiri og kraftur í þeim.“ Alexander Lindqvist lék ekki með Stjörnunni í kvöld. Að sögn Arnars er hann farinn heim til Svíþjóðar af persónulegum ástæðum. Arnar sagðist ekki vita hvenær Lindqvist sneri aftur til Stjörnunnar. Bjarki: Fannst við vera betra liðið Bjarki Ármann Oddsson var í skýjunum eftir sigurinn á Stjörnumönnum.vísir/vilhelm Bjarki Ármann Oddsson, þjálfari Þórs, ljómaði eins og sól í heiði eftir sigur sinna manna á Stjörnunni í kvöld. Þetta var fyrsti útisigur Þórsara á tímabilinu. Bjarki hrósaði sínum mönnum í hástert eftir leikinn, sérstaklega Ingva Þór Guðmundssyni sem kom óvænt til Þórs eftir að hafa verið látinn fara frá Haukum. Bjarki er ánægður með þá búbót og gat ekki stillt sig um að skjóta á þjálfara Hauka, Israel Martin. „Strákarnir stóðu sig frábærlega og þetta var algjör liðssigur. Það er gaman að Ingvi skori 22 stig og þjálfarann sem vildi hann ekki er uppi í stúku. Þetta sýnir hversu frábær leikmaður hann er og guðsgjöf fyrir Þór,“ sagði Bjarki. Þórsarar spiluðu heldur lina vörn í 1. leikhluta þar sem þeir fengu á sig 33 stig. „Við létum finna meira fyrir okkur. Við fengum ekki villu í 1. leikhluta og hugarfarið breyttist. Auðvitað kom Tommi [Þórður Hilmarsson] okkur svakalega á óvart með 22 stig. Hann var alveg stórkostlegur í fyrri hálfleik,“ sagði Bjarki. Eftir að Þór komst yfir var þjálfarinn sannfærður um að þeir myndu landa sigrinum. „Við vitum að Stjarnan rúllar mikið og getur misst taktinn. Ég sagði strákunum að halda einbeitingu, það skipti ekki máli þótt við værum að tapa með tíu stigum, við kæmum alltaf til baka. Um leið og við komumst yfir fundu strákarnir að þetta væri komið. Mér fannst við vera betra liðið í dag. Þeir söknuðu örugglega Alexanders Lindqvist sem er búinn að spila frábærlega fyrir þá,“ sagði Bjarki. Hann var virkilega sáttur með liðsheild Þórsara í kvöld og sagðir að allir sem komu við sögu í leiknum hafi lagt í púkkið. „Guy [Landry Edi] stóð sig frábærlega í því sem hann á að gera, Ivan [Aurrecoechea] auðvitað stórkostlegur eins og alltaf, Andrius [Globys] er límið í liðinu, Dedrick [Basile] sprengir upp varnirnar, Srdjan [Stojanovic] var stórkostlegur þótt hann hafi ekki hitt. Strákarnir sem komu af bekknum, Hlynur [Freyr Einarsson] og Raggi [Ágústsson] lögðu sitt af mörkum,“ sagði Bjarki hæstánægður að lokum.
Pétur leitar að nýjum Bandaríkjamanni: „Fjölhæfari leikmann, einhvern sem getur leyst margar stöður“
Uppgjörið: ÍR - Keflavík 79-91 | Kanalausir Keflvíkingar sáu til þess að ÍR fagnaði ekki fyrsta sigrinum