Tveir greindust smitaðir af Covid-19 hér á landi í gær. Þau greindust ekki í umfangsmikilli skimun tónleikagesta úr Hörpunni og starfsmanna Landspítalans heldur mætti fólkið í sýnatöku vegna einkenna og var ekki í sóttkví.
Fyrir liggur að töluverður fjöldi fólks hefur þurft í sóttkví vegna þeirra smita.
Núgildandi sóttvarnareglur renna út í næstu viku. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir að staðan muni skýrast á næstu dögum en hann búist við því að reglurnar verði annað hvort óbreyttar eða hertar.
Í kvöldfréttum Stöðvar 2 sagði Þórólfur að hann væri hálf smeykur um að veiran væri í frekari dreifingu og þess vegna væri verið að taka eins mörg sýni og verið væri að gera.