Körfubolti

NBA dagsins: Antetokounmpo segir engan heimsendi að tapa fjórum leikjum í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Giannis Antetokounmpo fer ekki á taugum þótt illa gangi hjá Milwaukee Bucks um þessar mundir.
Giannis Antetokounmpo fer ekki á taugum þótt illa gangi hjá Milwaukee Bucks um þessar mundir. getty/Christian Petersen

Þrátt fyrir að Milwaukee Bucks hafi tapað fjórum leikjum í fyrsta sinn í tvö ár segir leikmaður liðsins, Giannis Antetokounmpo, enga ástæðu til að örvænta.

Milwaukee tapaði fyrir Toronto Raptors á heimavelli í nótt, 113-124. Þetta er í fyrsta sinn síðan 2019 sem Milwaukee tapar fjórum leikjum í röð. Liðið tapaði þá síðustu fjórum leikjunum í úrslitum Austurdeildarinnar fyrir Toronto eftir að hafa unnið fyrstu tvo leikina í einvíginu.

Antetokounmpo segist eðlilega vera pirraður eftir slæmu gengi Milwaukee en segist ekki hafa stórar áhyggjur. Milwaukee fær tækifæri til að svara fyrir sig strax á morgun þegar liðið mætir Toronto aftur.

„Við höfum tapað fjórum leikjum í röð en erum ekki á heimleið. Þetta er ekki úrslitakeppnin. En auðvitað er þetta svekkjandi. Við viljum vinna, sérstaklega svona stóra leiki,“ sagði Antetokounmpo.

„Við verðum að líta á björtu hliðarnar. Við fáum annað tækifæri á morgun. Við þurfum að bæta okkur og þetta er enginn heimsendir.“

Antetokounmpo átti sjálfur mjög góðan leik í nótt; skoraði 34 stig, tók tíu fráköst, gaf átta stoðsendingar, stal boltanum fimm sinnum og varði tvö skot.

Eins og svo oft áður í vetur átti Milwaukee í vandræðum í 4. leikhluta í nótt. Antetokounmpo og félagar hafa tapað öllum níu leikjum sínum þar sem þeir hafa verið undir fyrir 4. leikhlutann. Toronto vann síðustu fimm mínútur leiksins í nótt, 12-4.

Fred VanVleet skoraði 33 stig fyrir Toronto sem er að koma til eftir erfiða byrjun á tímabilinu. Pascal Siakam skoraði 23 stig og tók þrettán fráköst.

Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá brot úr leikjum Milwaukee og Toronto, Phoenix Suns og Brooklyn Nets, Boston Celtics og Denver Nuggets auk flottustu tilþrifa næturinnar.

Klippa: NBA dagsins 17. febrúar

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×