Samkvæmt Yonhap fréttaveitunni sögðu þeir að tölvuþrjótarnir hefðu meðal annars reynt að brjóta sér leið inn á vefþjóna lyfjaframleiðenda í Suður-Kóreu og öðlast þannig upplýsingar um framleiðslu bóluefna og meðferðir gegn Covid-19.
Ekki liggur fyrir hvort ætlunarverk tölvuþrjótanna heppnaðist.
Í nóvember í fyrra gaf Microsoft út að tölvuþrjótar frá Rússlandi og Norður-Kóreu hefðu gert árásir á fjölda lyfjafyrirtækja og reynt að koma höndum yfir upplýsingar um bóluefni.
Sjá einnig: Saka Rússa og Kóreumenn um að reyna að stela gögnum um bóluefni
Reuters fréttaveitan segir sérfræðinga hafa sakað Norður-Kóreu um árásir á fjölda lyfjaframleiðenda í fyrra. Þar á meðal eru Johnson & Johnson, Novavax Inc og AstraZeneca.
Árásum á lyfjafyrirtæki og heilbrigðisstofnanir hefur farið fjölgandi í faraldri nýju kórónuveirunnar. Að þeim árásum koma tölvuþrjótar á vegum ríkja í leit að nýjustu upplýsingum og tækni varðandi faraldurinn.
Norður-Kórea hefur þó lengi beitt hópum tölvuþrjóta í þeim tilgangi að koma höndum yfir peninga í trássi við viðskiptaþvinganir gegn landinu. Sérfræðingar sem Reuters ræddi við segja líklegt að Norður-Kóreumenn hafi ætlað sér að selja upplýsingarnar frekar en að nota þær til framleiðslu eigin bóluefnis.