„Skúmurinn er sennilega eini fuglinn á Íslandi sem hefur drepið mann. Hann sló mann á hestbaki og hann rotaðist og drukknaði í læk eða polli. En mér fannst alltaf gaman af þessum fugli og þykir vænt um hann. Þegar maður var að sækja beljurnar út undir fjöru þá var þetta svona eins og í stríðsleik þar sem að orustuflugvélar réðust á þig.“
Í nýjasta þættinum af RAX Augnablik segir Ragnar Axelsson frá því hvernig ljósmyndaáhuginn hans byrjaði. RAX er marg verðlaunaður ljósmyndari og myndir hans hafa birst í mörgum af virtustu tímaritum heims en þetta byrjaði eiginlega allt með fuglum.
„Áhugi minn byrjaði í rauninni í sveitinni, þá fór ég og myndaði fugla. Ég byrjaði eiginlega að mynda skúminn.“
RAX smíðaði sér kassa og faldi sig í honum til þess að ná myndum af fuglinum grimma, sem honum hefur gengið misvel að ná óhreyfðum myndum af í gegnum árin.
„Það er svolítið erfitt að ná mynd af einhverju sem kemur fljúgandi á fleygiferð beint að þér.“
Frásögnina má heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan. RAX Augnablik eru örþættir og Skúmurinn er um fjórar mínútur.

Í þáttunum RAX AUGNABLIK segir ljósmyndarinn Ragnar Axelsson sögurnar á bak við margar af sínum þekktustu myndum. Ragnar hefur starfað á vettvangi í meira en fjörutíu ár og eru sögurnar hans ævintýralegar. Nýr þáttur kemur út á hverjum sunnudegi hér á Vísi og á Stöð 2+.
Hægt er að sjá alla þættina HÉR á Vísi.