Körfubolti

NBA dagsins: Þríhöfða sóknarskrímslið í Brooklyn skoraði samtals 89 stig

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tveir þriðju af sóknartríóinu ógurlega í Brooklyn Nets, James Harden og Kevin Durant.
Tveir þriðju af sóknartríóinu ógurlega í Brooklyn Nets, James Harden og Kevin Durant. getty/Kevin C. Cox

Kevin Durant, James Harden og Kyrie Irving skoruðu samtals 89 stig þegar Brooklyn Nets sigraði Atlanta Hawks, 128-132, í NBA-deildinni í nótt.

Þrátt fyrir Durant, Harden og Irving hafi allir verið heitir í leiknum þurfti Brooklyn framlengingu til að knýja fram sigur.

Harden gat tryggt Brooklyn sigur undir lok venjulegs leiktíma en þriggja stiga skot hans geigaði. Hann gulltryggði hins vegar sigur heimamanna með því að setja niður tvö vítaskot þegar 4,6 sekúndur voru eftir af framlengingunni.

Harden skoraði 31 stig sem er það þriðja mesta sem hann hefur gert fyrir Brooklyn síðan hann kom til liðsins frá Houston Rockets fyrr í þessum mánuði. Auk þess að skora 31 stig tók Harden átta fráköst og gaf fimmtán stoðsendingar. Hann er stoðsendingahæstur í NBA með 11,1 stoðsendingu að meðaltali í leik.

Durant skoraði 32 stig í leiknum í nótt og Irving var með 26 stig og sjö stoðsendingar. Sá síðarnefndi hitti úr ellefu af sautján skotum sínum í leiknum.

Brooklyn hefur unnið þrjá leiki í röð og er í 4. sæti Austurdeildarinnar. Liðið hefur unnið fimm af sjö leikjum sínum eftir að Harden kom.

Það kemur kannski lítið á óvart að ekkert lið hefur skorað fleiri stig að meðaltali í leik á tímabilinu en Brooklyn, eða 119,8 stig. Aftur á móti hafa aðeins fimm lið fengið á sig fleiri stig að meðaltali í leik (115,8).

Í myndbandinu hér fyrir neðan má sjá brot úr leik Brooklyn og Atlanta. Þar má einnig sjá brot úr leikjum Philadelphia 76ers og Los Angeles og Utah Jazz og Dallas Mavericks sem og tíu flottustu tilþrifin úr leikjum næturinnar.

Klippa: NBA dagsins 28. janúar

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×