Boris Johnson tilkynnti í kvöld um útgöngubann vegna kórónuveirufaraldursins í Englandi. Í ávarpi sem hann flutti í kvöld sagði hann útbreiðslu nýs afbrigðis veirunnar, sem herjað hefur á Bretlandseyjar og er talið 50 til 70 prósent meira smitandi en flest önnur afbrigði, vera áhyggjuefni.
Þetta mun þó ekki hafa áhrif á atvinnuíþróttafólk en bæði þau sem stunda íþróttir innandyra sem og utandyra geta haldið áfram æfingum og keppni. Leikir munu þó áfram fara fram án þess að áhorfendur séu viðstaddir.
CONFIRMED: Government says elite sports persons can still train and compete in indoor and outdoor facilities. This includes Premier League. #SSN #COVID19
— Bryan Swanson (@skysports_bryan) January 4, 2021
Mikið er um fótbolta á næstunni. Á morgun og miðvikudaginn fara fram undanúrslitaleikir í enska deildarbikarnum og um næstu helgi fer þriðja umferðin í enska bikarnum fram. Enska úrvalsdeild kvenna sem og ruðningsleikir svo eitthvað sé nefnt eiga einnig að fara fram í vikunni og er stefnt á að spila alla þá leiki, þrátt fyrir nýjustu tíðindi.
Fjórum leikjum í ensku úrvalsdeildinni hefur verið frestað vegna kórónuveirusmita hjá liðum deildarinnar á leiktíðinni. Samtals hefur 52 leikjum verið frestað í deildarkeppnum á Englandi vegna veirunnar.