Það var leikarinn Pálmi Gestsson sem lék Kára í atriði þar sem söngleiknum Níu líf, um Bubba Morthens, hafið verið snúið á haus og snerist í Skaupinu um Kára og störf hans í kórónuveirufaraldrinum hér á landi.
Fannst þér hann ná þér vel?
„Ég bý við þau forréttinni að þurfa ekki oft að horfa á sjálfan mig og því er ég er ekki í góðri aðstöðu til að meta hvort hann gerði þetta vel eða ekki. Pálmi er þó mikill snillingur þannig ég efast ekki um að hann hafi gert þetta vel,“ segir Kári og bætir við að sér hafi þótt áramótaskaupið ágætt í ár.
„Ekkert betra eða verra en þau eru yfirleitt. Skaupið reynir alltaf að gera of mikið. Skaupið sýnir þó mikilvægi þess að hafa þátt eins og gömlu Spaugstofuna á dagskrá. Satíra af þessari gerð er góð fyrir samfélagið,“ segir Kári Stefánsson forstjóri íslenskrar erfðagreiningar.
„Skaupið var fönní“
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, var einnig á meðal þeirra sem tekin voru fyrir í Skaupinu og var sérstaklega vísað til þess þegar hún hitti vinkonur sínar og tók með þeim myndir þar sem fjarlægðartakmörk virtust ekki virt.
Á Twitter lýsti Þórdís Kolbrún ánægju sinni með Skaupið og sagði það hafa verið fyrir alla fjölskylduna.
Skaupið var fönní. Fyrir alla fjölskylduna, horfði með manni, börnum og tengdó. Góðir leikarar og ég held að flestir hafi tengt við covid raunveruleikann og steikina sem árið var #skaupið Gleðilegt nýtt ár 🎆 pic.twitter.com/VCsSKURwoV
— Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir (@thordiskolbrun) January 1, 2021
„Horfði með manni, börnum og tengdó. Góðir leikarar og ég held að flestir hafi tengt við covid raunveruleikann og steikina sem árið var,“ skrifaði Þórdís Kolbrún á Twitter.
Áramótaskaupið, sem er á dagskrá RÚV á hverju gamlárskvöldi, fær iðulega misgóðar viðtökur, enda erfitt að gera öllum til geðs. Netverjar voru líkt og fyrri ár duglegir að segja sína skoðun á því á samfélagsmiðlinum Twitter. Heilt yfir virðist Skaupinu þó hafa verið vel tekið.