Sport

Stuðningsmenn Liverpool hluti af vandamálinu við að setja ensku deildina aftur af stað

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsfólk Liverpool troðfyllti götur Liverpool borgar þegar leikmenn fögnuðu sigrinum í Meistaradeildinni með þeim í fyrra.
Stuðningsfólk Liverpool troðfyllti götur Liverpool borgar þegar leikmenn fögnuðu sigrinum í Meistaradeildinni með þeim í fyrra. Getty/Nigel Roddis

Stuðningsmenn Liverpool geta ekki beðið eftir því að enska úrvalsdeildin verði sett aftur af stað svo að liðið þeirra geti tryggt sér langþráðan Englandsmeistaratitil.

Liverpool liðinu vantar aðeins sex stig til að tryggja sér fyrsta Englandsmeistaratitil félagsins frá 1990.

Mögulegur fögnuðu stuðningsmanna Liverpool er hins vegar sögð vera ein af ástæðunum fyrir því að menn hafa áhyggjur af því að byrja ensku úrvalsdeildina aftur.

Enska úrvalsdeildin hefur sett sér það markmið að liðin byrja að æfa aftur um miðjan næsta mánuð og að leikirnir hefjist síðan að nýju 8. júní. Rætt hefur verið um að spila leikina á nokkrum hlutlausum völlum og lágmarka samskipti leikmanna við annað fólk á meðan síðustu níu umferðirnar eru spilaðar.

Þó að leikir Liverpool fari fram á öðrum stað í Englandi og engir áhorfendur séu í stúkunni þá má bóka það að stuðningsmenn liðanna munu fylgjast vel með í sjónvarpinu. Ekki síst umræddir stuðningsmenn Liverpool.

Það þarf ekki að nota mikið ímyndarafl til að sjá fyrir sér senurnar í Liverpool borg þegar liðið nær að stíga síðasta skrefið og tryggja sér titilinn. Í sigurhátíðinni eftir sigurinn í Meistaradeildinni í fyrra þá fylltu stuðningsmenn Liverpool götur borgarinnar.

Enska úrvalsdeildin hefur því meðal annars ráðfært sig við lögregluna vegna ótta um að enginn myndi ráða neitt við neitt í fagnaðarlátum stuðningsmanna Liverpool.

Það efast auðvitað enginn um það að áhangendur Liverpool séu tilbúnir í það að fagna því að vinna loksins nítjánda meistaratitilinn. Liðið hefur fjórum endað í öðru sæti frá 1990 og oft eftir að hafa misstigið sig á lokakaflanum.

Nú er liðið með 25 stiga forskot og það eina sem vantaði var að klára deildina. Kórónuveirufaraldurinn hefur aftur á móti komið í veg fyrir það hingað til.

Samkvæmt frétt Daily Mirror þá lítur það hreinlega út þannig að stuðningsmenn Liverpool séu í raun hluti af vandamálinu við að setja ensku deildina aftur af stað.

Það þarf því ekki aðeins að tryggja smitvarnir á meðan deildin verði kláruð heldur einnig að úthugsa það hvernig sé best að halda sigurreifum stuðningsmönnum Liverpool frá því að þjóta út á götur Bítlaborgarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×