Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands ræðir aðgerðir Íslands, og árangur, í baráttunni við faraldur nýju kórónuveirunnar í viðtali við hina bresku Sky-fréttastofu sem birtist í morgun. Þá lýsir höfundur greinarinnar því að Sky-teymið hafi fengið símtal frá smitrakningateyminu fyrsta dag Íslandsfararinnar.
Áhugi erlendra fjölmiðla á viðbrögðum heilbrigðisyfirvalda við faraldrinum hér á landi hefur verið talsverður. Nokkrar bandarískar fréttastofur hafa fjallað um skimun Íslenskrar erfðagreiningar og rætt við Kára Stefánsson forstjóra fyrirtækisins, auk þess sem smitrakningarteymi ríkislögreglustjóra og umfangsmiklar sýnatökur hafa vakið athygli.
Sjá einnig: Ísland sagt fullkominn vettvangur til að rannsaka veiruna
Íslendingum hætti til að rífast um allt
Katrín segir í viðtalinu við Sky, sem tekið var hér á landi í síðustu viku, að meginstefna íslenskra stjórnvalda hafi verið að fylgja tilmælum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO.
„Það þýðir að taka sýni úr mörgum, rekja [smit], setja fólkið í sóttkví og fá fólk í einangrun þar sem það er veikt. Þessar leiðbeiningar eru það sem við höfum verið að gera.“

Katrín bendir jafnframt á að Íslendingar njóti góðs af því að vera fámenn þjóð. Auðveldara sé að afla upplýsinga um fólkið í landinu en ella og þá sé samheldnin mikilvæg.
„Okkur hættir til að rífast um allt. En þegar við tökumst á við eitthvað stórt þá eigum við það til að sýna sterka samstöðu.“
Símtal frá smitrakningarteyminu
Þá ræðir fréttamaður Sky við fólk sem mætt er í sýnatöku hjá fyrirtæki sem ekki er nafngreint í umfjölluninni en ætla má að þar sé um að ræða Íslenska erfðagreiningu. Sérstaklega er tekið fram að enginn sem beið eftir sýnatöku hafi sýnt einkenni.
„Enginn þeirra finnur til veikinda. Enginn er með hósta eða hita. Enginn hefur sýnt einkenni Covid-19,“ segir í frétt Sky.

Þá beinir fréttamaður sjónum sínum að smitrakningarteyminu og ræðir við Gest Pálmason, starfsmann teymisins, sem lýsir ferlinu við smitrakninguna.
Sérstaklega er bent á þá vinnu sem snýr að því að fylgjast með ferðum erlendra gesta hingað til lands. Sky-teymið, sem kom til landsins daginn áður en hertar reglur um sóttkví tóku gildi, fór ekki varhluta af því.
„Fyrsta dag okkar á eyjunni var hringt í okkur er við vorum við vinnu. Það var lögreglumaður sem vildi vita hvar við værum stödd, hvert við myndum fara. Upplýsingum um flugið okkar, nöfnum og símanúmerum hafði verið komið áleiðis til teymisins. […] Þau telja að þau hafi náð stjórn á faraldrinum og vilja ekki eiga á hættu að ferðamenn breiði hann út á ný,“ segir í umfjöllun Sky News.