Jákvæðar fréttir bárust fyrir helgi en talið er að Pepsi Max deild karla og kvenna geti hafist um miðjan júní. Leikmenn liðanna leggja því allt kapp á að vera í sem bestu formi þegar liðin geta hafið æfingar á ný.
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, leikmaður Íslandsmeistara Vals, segir leikmenn Hlíðarendaliðsins í góðum málum og er almennt þakklát fyrir að mótið fari fram.
Þetta kom fram í Sportpakkanum Stöðvar 2 í kvöld en Ásgerður Stefanía, eða Adda eins og hún er oftast kölluð, ræddi við Júlíönu Þóru Hálfdánardóttur um ástandið vegna kórónufaraldursins.
Viðtalið má sjá í spilaranum neðst í fréttinni.
„Við erum vel sett hjá Val. Við erum með ofboðslega færan þrekþjálfara sem sér um að halda okkur í standi, erum með mæla frá honum þannig það gengur vel. Við búum hérna nokkrar saman í nágrenni við hvor aðra svo við hittumst og hlaupum saman ásamt því að lyfta,“ sagði Adda þegar Júlíana heimsótti hana í dag.
„Að sjálfsögðu,“ sagði Adda kímin aðspurð hvort það væru ekki örugglega tveir metrar á milli leikmanna þegar þær hittust.
„Við vissum ekki hvort mótið yrði og maður er þakklátur fyrir það að fá að spila. Ég vorkenni körfubolta- og handboltafólkinu þar sem mótið var bara blásið af,“ sagði hún að lokum.