Sport

Sigríður fékk brons á Arnold Classic

Sindri Sverrisson skrifar
Sigríður Sigurjónsdóttir með íslenska fánann og bronsverðlaunin eftir mótið, ásamt öðrum verðlaunahöfum og Magnúsi Ver Magnússyni.
Sigríður Sigurjónsdóttir með íslenska fánann og bronsverðlaunin eftir mótið, ásamt öðrum verðlaunahöfum og Magnúsi Ver Magnússyni.

Sigríður Sigurjónsdóttir úr íþróttafélaginu Suðra var á meðal keppenda á Arnold Classic mótinu fyrr í þessum mánuði og náði góðum árangri. Varúðarráðstafanir vegna kórónuveirunnar settu mikinn svip á mótið.

Sigríður hafnaði í 3. sæti í standandi flokki 1 innan raða fatlaðra. Hún sigraði eina grein af þremur með miklum yfirburðum og bætti sitt eigið met þegar hún tók 11 lyftur í réttstöðu með heil 130 kíló í höndunum. Þetta er aðeins annað mótið í aflraunum sem Sigríður tekur þátt í og það fyrsta utan Íslands.

Mikið var gert til að minnka hættu á smiti á mótinu og þurfti að aflýsa mörgum keppnisgreinum auk þess að takmarka aðgang að keppnum, þannig að aðeins keppendur, þjálfarar, fylgdarmenn og nánustu aðstandendur fengu að fylgjast með.

Auk þess að keppa sjálf fylgdist Sigríður með Hafþóri Júlíusi Björnssyni fagna sigri á mótinu. Þá segist hún hafa kynnst öðrum keppendum vel og myndað sterk vinabönd, en til stendur að margir keppenda af mótinu komi til Íslands og taki þátt í Viking Strength Challenge sem halda á samhliða Víkingahátíðinni í Hafnarfirði í júní. Það verður hins vegar að koma í ljós hvaða áhrif útbreiðsla kórónuveirunnar hefur á það.

Sigríður hefur auk þess sett stefnuna á heimsmeistaramótið í Þýskalandi sem halda á í ágúst.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×