Í dag klukkan 15 fá þeir sem hafa gaman af spilum eitthvað fyrir sinn snúð því leikarar í Borgarleikhúsinu ætla að spila saman hlutverkaspilið Dungeons and Dragons, eða Drekar og dýflissur, í beinni útsendingu.
Þetta er í annað skipti sem leikararnir setja sig í hlutverk ævintýrapersónanna í D&D og var síðast boðið upp á mikil tilþrif. Hér er hægt að horfa á upptöku af síðasta spili.
Spilið hefst klukkan 15 og verður hægt að horfa á það hér fyrir neðan.
Spilarar í dag eru Halldóra Geirharðsdóttir, Hjörtur Jóhann Jónsson, Bergur Þór Ingólfsson og Þuríður Blær Jóhannsdóttir. Björn Stefánsson er stjórnandi.
Þetta er önnur beina útsendingin úr Borgarleikhúsinu í dag því í hádeginu las Sigurður Þór Óskarsson ævintýrið um Pétur Pan. Á morgun klukkan 20 verður síðan sýnd upptaka af sýningunni Mávurinn eftir Anton Tsjékov, sem sett var á svið árið 2015.
Allar útsendingar Borgarleikhússins eru aðgengilegar hér á Vísi og á sjónvarpsstöðinni Stöð 2 Vísir.