Formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar segir söluna jafnvel meiri í ár en í fyrra.
„Það er okkar tilfinning að efnahagssveiflur hafa tiltölulega lítil áhrif á flugeldasölu. Það er okkar reynsla í gegnum árin,“ sagði Þór Þorsteinsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
Engar áramótabrennur verða á dagskrá á gamlárskvöld vegna samkomutakmarkanna. Ekki er mælst með því að fólk safnist saman en undanfarin ár hefur til dæmis verið mikil hópamyndun fyrir framan Hallgrímskirkju. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu verður vel mönnuð á síðasta degi ársins en ekki með fyrirfram skipulagðan viðbúnað vegna hópamyndana.
Fegin að árið sé á enda
Fréttastofa ræddi við fólk sem statt var í flugeldasölu Björgunarsveitar Hafnarfjarðar
„Ég held að flestir séu bara nokkuð fegnir. Það er bara fínt að sprengja þetta burt,“ sagði Sólveig Björnsdóttir.
„Ég verð dauðfegin að kveðja þetta ár,“ sagði Birna og Viktor sem var með henni í för segir að gleðin verði mikil.
Ætlið þið að sprengja meira í ár en síðustu ár?
„Kannski, sjáum til,“ sagði Viktor og bætir Sigurjón því við að kakan verði aðeins stærri í ár en síðustu ár.

„Við ætlum ekki að kveðja þetta ár með mínútu þögn. Við ætlum að sprengja það í burtu, það er það sem ég heyri“ sagði Þór.
Sterkar líkur eru á svifryksmengun fyrstu klukkustundir ársins 2021 vegna veðurskilyrða og megnunar frá flugeldum að því er segir í tilkynningu frá borginni.
Björgunarsveit Hafnarfjarðar stendur fyrir flugeldasýningu klukkan 20.30 í kvöld. Skotið verður upp frá Hvaleyrarlóni og er fólk minnt á að gæta að sóttvarnareglum og njóta sýningarinnar í jólakúlunni, t.d. í bílnum.