Fótbolti

Bakvörður enska landsliðsins á leið í tíu vikna bann

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Trippier í leik með enska landsliðinu.
Trippier í leik með enska landsliðinu. EPA-EFE/STEPHANIE LECOCQ

Kieran Trippier, bakvörður Atlético Madrid á Spáni og enska landsliðsins, hefur verið dæmdur í tíu vikna bann fyrir brot á veðmálareglum enska knattspyrnusambandsins. Mun hann missa af 13 leikjum með Atlético vegna bannsins.

Þá mun Trippier einnig þurfa að greiða sekt upp á rúmar tólf milljónir króna eða 70 þúsund sterlingspund.

Eftir langa rannsókn enska knattspyrnusambandsins á undarlegum veðmálum í kringum félagaskipti Trippier til Atlético Madrid frá Tottenham Hotspur hefur sambandið ákveðið að dæma Trippier eins og áður segir í tíu vikna bann.

Á Trippier að hafa gefið aðilum upplýsingar sem þeir hafi í kjölfarið hagnast á eftir að hafa veðjað á að hann færi til Atlético. Leikmenn í Englandi sem og annarsstaðar mega alls ekki gefa slíkar upplýsingar þar sem hægt er að hagnast verulega á þeim á veðmálasíðum heimsins.

Trippier heldur fram sakleysi sínu en hlutlaust nefnd var fengin inn til að dæma í málinu og dæmdi hann sekan. Hann má ekki spila fyrr en 1. mars næstkomandi en þá mun hann hafa misst af 13 leikjum.

Atlético er sem stendur á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar að loknum 13 umferðum og hefur Trippier leikið alla leiki liðsins í La Liga frá upphafi til enda. Hann hefur lagt upp fjögur mörk í leikjunum þrettánum.

The Guardian greindi frá.


Spænski boltinn, La Liga, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. La Liga er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×