James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarformaður ríkisútgerðarinnar Fishcor, er skráður fyrir félaginu, en nokkur hundruð milljónir króna eru sagðar hafa verið millifærðar á reikning félagsins í Dúbaí á árunum 2014 til 2019. Fyrst var greint frá málinu í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í gær.
Í greinagerð ríkissaksóknara í Namibíu, sem fréttastofa hefur undir höndum, er vísað til tölvupóstssamskipta Jóna Óttars og Hatuikulipi þar sem Jón Óttar sagðist telja ólíklegt að yfirvöld myndu finna greiðslurnar. Þremur reikningum hefði verið lokað og yfirvöld hefðu ekki burði til þess að fara á eftir flóknum aflandsgreiðslum.

Í samskiptum þeirra var því velt upp hvort Samherji ætti að útbúa skjöl til þess að réttlæta þær greiðslur sem höfðu farið fram. Er Jón Óttar sagður hafa lýst því yfir að það gæti leitt til þess að peningaslóðin myndi finnast.
Ríkissaksóknari í Namibíu fer fram á að tvö skip Samherja verði kyrrsett og er sú krafa byggð á því að skipin hafi verið nýtt til þess að afla ólögmæts ávinnings fyrir Samherja.
Samherji birti í gær yfirlýsingu þar sem því var hafnað að félög tengd Samherja hafi greitt mútur eða aðrar óeðlilegar greiðslur. Í svari Björgólfs Jóhannssonar, forstjóra Samherja, við fyrirspurn Ríkisútvarpsins, sagði hann ekkert nýtt vera í fréttaflutningnum. Engar sönnur hefðu verið færðar á ásakanirnar og Samherji væri staðráðinn í því að verja fyrirtækið og tengd félög af krafti.