Fótbolti

Dreymir um Messi í Napoli treyjunni

Anton Ingi Leifsson skrifar
Kevin Prince og Messi fyrir einn leik Barcelona.
Kevin Prince og Messi fyrir einn leik Barcelona. Jeroen Meuwsen/Soccrates/Getty Images

Kevin-Prince Boateng, leikmaður A.C. Monza, vonar að sinn fyrrum samherji hjá Barcelona, Lionel Messi, skipti til Napoli. Það gæti verið fallegt að sjá hann spila í sömu treyju og Maradona.

Kevin-Prince Boateng spilaði með Messi hjá Barcelona fyrri hluta ársins árið 2019 en hann var lánaður til félagsins frá Sassuolo. Mikið kurr hefur verið í kringum Messi hjá Barca að undanförnu og hann er sagður vilja burt.

„Messi mun klára samninginn sinn hjá Barcelona en hversu frábært myndi það verða ef hann myndi hringja til Napoli og segja: „Ég kem“?“ sagði Boateng í samtali við ESPN.

„Þetta yrði eins og í bíómynd. Hann þyrfti að taka þyrlu þangað því fólk myndi borða hann lifandi á flugvellinum, því það yrðu allir svo glaðir. Bara sú saga að hann ætlaði að heiðra minningu Maradona og spila fyrir Napoli. Það yrði rosaleg saga.“

„Það yrði ekki bara saga fyrir fótboltann, heldur væri það góð skilaboð og saga fyrir heiminn. Ég myndi óska þess að ég væri í skóm Messis,“ bætti Boateng við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×