Björn Eriksson, forstjóri heilbrigðisþjónustunnar í Region Stockholm, hefur biðlað til yfirvalda um að fá aukinn mannafla til að hægt sé að sinna öllum þeim sem hafa þurft að leggjast inn á sjúkrahús vegna Covid-19. Alls séu 83 nú á gjörgæslu vegna Covid-19 í Stokkhólmi.
Greint var frá því í morgun að dauðsföllum vegna Covid-19 í Svíþjóð hafi fjölgað um 96 síðan í gær. Alls hafi því 7.296 látist af völdum Covid-19 í Svíþjóð frá upphafi faraldursins. Smituðum hefur fjölgað um rúmlega sjö þúsund síðan í gær og hafa því alls um 305 þúsund manns greinst með sjúkdóminn í Svíþjóð frá upphafi.
Alls er nú 261 á gjörgæslu í landinu vegna Covid-19.
Gagnrýndi íbúa Stokkhólms harðlega
Eriksson gagnrýndi íbúa í Stokkhólmi harðlega á fréttamannafundi í dag og sagði marga ekki taka ástandið nógu alvarlega.
„Við höfum verið í mannmergð og verið í samskiptum við of marga utan heimilis. Þetta gengur upp núna þar sem heilbrigðisstarfsfólk skilar enn á ný stórkostlegu vinnuframlagi. En þetta gengur ekki til lengdar,“ sagði Eriksson.
„Nú er komið nóg. Það getur ekki verið þess virði – að hafa alla þessa hittinga eftir vinnu og fara milli verslana í jólagjafainnkaupum eða hitta fólk í aðventukaffi. Afleiðingarnar verða skelfilegar,“ sagði Eriksson. Hann segir ekkert lát vera á fjölgun smittilfella í borginni.